Það var komið vel fram í desember þegar seinni leikurinn fór fram og aðstæður því erfiðar fyrir bæði lið, líkt og í fyrri leiknum. ÍBA hafði að lokum betur í seinni leiknum en það var Kári Árnason sem skoraði sigurmarkið í framlengingu. Akureyringarnir voru einu marki undir í hálfleik og lentu 0:2 undir snemma í síðari hálfleik og útlitið ekki bjart. Magnús Jónatansson var fyrirliði ÍBA á þessum tíma og hann man vel eftir úrslitaleiknum. "Menn voru frekar niðurlútir í klefanum í hálfleik, enda staðan ekki vænleg. Við vorum á því að bæði mörk Skagamanna hefðu verið ólögleg, annað skorað eftir rangstöðu en það seinna eftir brot á okkar manni," sagði Magnús. Forystumenn KSÍ fóru og heilsuðu upp á Skagamenn í hálfleik en í klefa ÍBA kom Bragi Sigurjónsson þáverandi bankastjóri Búnaðarbankans á Akureyri. "Bragi stappaði í okkur stálinu og sagði að það yrði tekið vel á móti okkur fyrir norðan þegar við kæmum heim með bikarinn. Þessi orð hans virkuðu vel." Magnús minnkaði muninn, skömmu eftir að Skagamenn skoruðu sitt annað mark snemma í síðaðri hálfleik. "Það sló Skagamenn út af laginu að fá á sig þetta mark, við fylgdum þessu eftir og Eyjólfur Ágústsson jafnaði fyrir okkur fyrir leikslok."
Í framlengingunni var það svo Kári Árnason sem skoraði sigurmarkið sem fyrr segir. Magnús segir liðið hafi fengið hreint ótrúlegar góðar móttökur við heimkomuna "og ég hef aldrei séð annan eins mannfjölda á flugvellinum."
Nánar verður fjallað um þennan viðburð í Vikudegi á fimmtudag.