Nokkrar hræringar hafa orðið í leikmannamálum Þórs og KA í knattspyrnunni að undanförnu enda var félagaskiptamarkaðnum lokað í gærkvöldi.
Þórsarar fengu til sín Atla Jens Albertsson frá Vinum Nunna fyrir skömmu og lék hann sinn fyrsta leik með liðinu í 2-1 tapleik á Ólafsvík um helgina. Atli Jens meiddist í leiknum og óvíst hversu lengi hann verður frá.
Þá seldu Þórsarar einn sinn besta leikmann, Pétur Heiðar Kristjánsson, til úrvalsdeildarliðs Keflavíkur og lék hann með Keflavík gegn FH á laugardaginn sl. Nánar er sagt frá sölu Péturs Heiðar í Vikudegi á morgun.
KA-menn hafa heldur ekki setið auðum höndum á leikmannamarkaðnum. Þeir fengu til sín þrjá leikmenn frá tengslafélagi sínu Hömrunum. Um er að ræða Hjörvar Maronsson og hina þaulreyndu Steingrím Eiðsson og Örlyg Helgason. Ljóst er að þrír leikmenn munu yfirgefa KA í byrjun ágúst, þeir Sveinn Elías Jónsson, Þórður Arnar Þórðarson og Baldvin Ólafsson halda þá til Bandaríkjanna í nám.