Leikhópurinn Umskiptingar sýnir í Leikhúsinu á Möðruvöllum

Fyrsta sagan sem sögð verður í Töfrabókunum er sagan af Gýpu, en  hún er með eindæmum matgráðug og m…
Fyrsta sagan sem sögð verður í Töfrabókunum er sagan af Gýpu, en hún er með eindæmum matgráðug og mesta furða að hún hafi ekki verið búin að éta heimilisfólk út á gaddinn Myndir Aðsendar

Leikhópurinn Umskiptingar frumsýnir verkið Töfrabókina, sagan af Gýpu á sunnudag, 1. október kl. 14 í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit og verða sýningar á sunnudögum í október og fyrstu helgi í nóvember.Eftir sýningar verður hægt að kaupa kaffi og kruðerí, föndra svolítið og jafnvel sjá hvernig hægt er að gera sína eigin útgáfu af Gýpu.

 Töfrabækurnar er brúðuleikhús þar sem unnið er með þjóðsögur. Hugmyndin er að með tímanum verði hægt að velja um nokkrar bækur sem innihalda eina sögu hver. Áhorfendur velja þá sögu sem þau vilja heyra en þegar bókin opnast breytist hún í leikmynd fyrir söguna og þær persónur sem koma fram verða tvívíðar brúður sem stjórnað verður ofan frá. Tveir leikarar stjórna brúðum og sjá um allan leik og lifandi tónlistarflutning.

Fyrsta sagan sem sögð verður í Töfrabókunum er sagan af Gýpu. Gýpa er með eindæmum matgráðug og mesta furða að hún hafi ekki verið búin að éta heimilisfólk út á gaddinn. Þegar matinn þrýtur étur hún askinn sinn, karl og kerlingu í kotinu og kúna Kreppilhyrnu. Síðan heldur hún af stað til að leita að meiri mat.

Þarf ekki alltaf að kosta miklu til

Við gerð brúða, leikmyndar og búninga hefur verið leitast við að nýta það sem til er í stað þess að kaupa nýtt. Brúðurnar og bókin sjálf eru gerð úr alls kyns umbúðum og efnisafgöngum sem öðlast þannig nýtt líf. Það sama á við um búningana en þeir eru m.a. gerðir úr gömlum rúmfötum, gluggatjöldum og gömlum flíkum en nytjamarkaður Hjálpræðishersins var hópnum innan handar með efni í búninga. „Við vildum bara sýna að það er hægt að gera skemmtilegt leikhús án þess að kosta miklu efnislegu til en auðvitað liggur mikil vinna að baki bæði í hugmyndavinnu og gerð leikbrúða, leikmyndar og búninga“ segir Fanney, framleiðandi sýningarinnar.

Virkir félagar í Umskiptingareruþau Jenný Lára Arnórsdóttir, Margrét Sverrisdóttir, Sesselía Ólafsdóttir, Vilhjálmur B. Bragason, Sindri Swan, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Arnþór Þórsteinsson, Fanney Valsdóttir, Kolbrún Lilja Guðnadóttir og María Pálsdóttir.

Jónína Björt Gunnarsdóttir og Margrét Sverrisdóttir eru í leikhópnum Umskiptingum sem setur verkið Töfrabókina upp í Leikhúsinu á Möðruvöllum í Hörgársveit á sunnudag.


Athugasemdir

Nýjast