Á morgun, laugardag, verður haldið upp á 5 ára afmæli Leikfangasýningarinnar í Friðbjarnarhúsi á Akureyri. Ýmislegt verður í boði fyrir börnin eins og kynning á gömlum leikjum, Bangsi Bestaskinn les sögu, útileikföng omfl. Það er alltaf frítt fyrir börn og í tilefni dagsins verður 2 fyrir 1 af aðgangseyri fyrir fullorðna og opið frá kl. 13 - 17 eins og alla daga. Leikfangasýningin er alfarið í umsjá Guðbjargar Ringsted, sem einnig starfar við myndlist.
"Tilurðin að þessari sýningu eða safni er sú að ég var stödd á Leikfangasafni í Borgå í Finnlandi árið 1992 og varð svona heilluð að þegar ég kom heim ákvað ég að fara að safna leikföngum og setja upp safn. Ég auglýsti í Mogganum þann 26. sept. 1992 eftir leikföngum og fékk smá viðbrögð, en eftir að ég opnaði í Friðbjarnarhúsi árið 2010, hefur bæst mikið í safnið," segir Guðbjörg. Akureyrarstofa hefur styrkt Leikfangasýninguna frá upphafi með húsnæðinu. Facebook síða: Leikföng frá liðinni öld