Svo gæti farið að leik Víkings og Þórs sem á að fara fram á Víkingsvelli á morgun í fyrstu umferð Pepsi-deild karla í knattspyrnu, verði frestað. Eftir því sem fram kemur á Twittersíðu Haralds Haraldssonar framkvæmdarstjóra Víkings hefur félagið óskað eftir frestun og hefur KSÍ heimild til þess að krefjast varavallar með 24 tíma fyrirvara.
Víkingsvöllur var snævi þakinn í gærdag en mikil ofankoma hefur verið fyrir sunnan um helgina. Leikurinn gæti verið færður innandyra en einnig gæti honum verið frestað eitthvað fram á sumarið.
Þá er það einnig að frétta úr herbúðum Þórs að framherjinn David Disztl meiddist lítillega á æfingu fyrir helgi og gæti misst af fyrstu þremur leikjum liðsins á tímabilinu, gegn Víkingi, Fram og Stjörnunni. Þetta kemur fram á mbl.is.