Búið er að fresta leik Þórs og FH í annað sinn en liðin áttu að mætast á Þórsvelli í kvöld í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Leikurinn átti upphaflega að fara fram í gær en var frestað þar sem allt innanlandsflug lá niðri. Það sem stoppar leikinn í kvöld er að framkvæmdarstjórn Þórs óskaði eftir við KSÍ að leikurinn yrði frestaður aftur vegna þess að Þórsvöllurinn er ekki góðu ástandi. Leikurinn hefur verið settur þann 13. júní.
„Það voru bæði Þór og FH sem óskuðu eftir að leiknum yri frestað, bæði vegna vallaraðstæðna og því veðri sem hér er,“ segir Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs í samtali við Vikudag.
Þá verður Þórsvöllurinn ennfremur lokaður fram yfir mánaðamótin. Það verða því engir bikarleikir þar í vikunni í Valitor- bikar karla, en þeir leikir færast inn í Bogann. Það er annars vegar leikur KA og Grindavíkur á miðvikudaginn og hins vegar leikur Þórs og Leiknis F. á fimmtudag.
Næsti leikur sem fram fer á Þórsvelli verður væntanlega þann 1. júní í Pepsi-deild kvenna.