Jóhannes segist hafa tekið þessa umræðu fyrst upp í tengslum við umræðu um stefnumótun varðandi íþróttamál, en enn sem komið er hafi ekki neitt gerst í þessum efnum. Hann nefnir sem dæmi um háa leigu, að í tengslum við N1 mótið í fótbolta sem KA efnir til árlega, hafi félagið greitt um 650 þúsund krónur í leigu vegna afnota af tveimur grunnskólum, Lundarskóla og Brekkuskóla. Við þá upphæð bætist kostnaður við þrif og fleira, þannig að þegar upp er staðið fari kostnaður upp undir eina milljón króna. Sama gildi um Íþróttafélagið Þór sem efnir til svonefndra Goðamóta árlega og hafi greitt um hálfa milljón króna í leigu fyrir afnot af Glerárskóla fyrir gesti mótsins. Félögin séu m.a. að reyna að fjármagna starfsemi sína með því að efna til mótanna. Þá sé óumdeilt að þau hafi jákvæð áhrif á keppendur og eins hafi menn bent á að þau hafi mikla þýðingu fyrir ferðaþjónustu og atvinnulíf í bænum, en gríðarlegur fjöldi fólks sækir umrædd íþróttamót. „Menn lofa og prísa menningar- og íþróttatengda ferðaþjónustu, en svo er í leiðinni verið að skattpína íþróttafélögin sem að þeim standa," segir Jóhannes.
Hann bendir á að víða annars staðar, m.a. í Vestmannaeyjum, Reykjavík og Kópavogi sé litið svo á að framlag sveitarstjórnar til íþróttamóta af þessu tagi sé að lána mannvirki sín, skólana fyrir gesti mótanna. Engin greiðsla komi fyrir. „Ég skil vel að bærinn rukki leigu fyrir þessi afnot. Ég er að vekja athygli á því að þessi leiga er alltof há. Að mínu mati er brýnt að hún verði lækkuð," segir Jóhannes og væntir þess að málið verði tekið upp við endurskoðun á stefnumótum bæjarins í íþróttamálum.