Lay Low og LA styrkja Aflið á Akureyri

Tónlistarkonan Lay Low ánafnar ágóða sínum af sölu nýs geisladisks með tónlistinni úr Ökutímum til Aflsins á Akureyri, samtaka gegn heimilis - og kynferðisofbeldi. Leikfélag Akureyrar ánafnar einnig ágóða af síðustu sýningu ársins til sömu samtaka. Leiksýningin Ökutímar hefur vakið aðdáun gagnrýnenda og áhorfenda en einnig vakið sterk viðbrögð enda umfjöllunarefnið viðkvæmt. Ökutímar lýsir ævi konu sem varð fyrir kynferðislegri misnotkun á unga aldri en Lay Low flytur alla tónlistina í sýningunni. Sunnudaginn 9. desember verður efnt til umræðna að lokinni aukasýningu í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi. Á meðal þáttakenda í umræðunum verða Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu, Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur, María Reyndal leikstjóri og leikhópur Ökutíma. Um er að ræða samstarfsverkefni LA og Jafnréttisstofu í tilefni 16 daga átaks Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi. Tilgangurinn er að vekja athygli á þeirri tegund kynbundins ofbeldis sem er hvað erfiðust viðureignar og mest dulin í samfélagi okkar; misnotkun á börnum. Leikritið Ökutímar lýsir á nærfarin en afhjúpandi hátt ævi konu sem varð fyrir misnotkun á unga aldri. Leikarar Leikfélags Akureyrar hafa fengið einróma lof fyrir frammistöðu sína í verkinu. Lay Low, eða Lovísa Elísabet Sigrúnardóttir, vill í tilefni þessa nú tilkynna um útgáfu á tónlistinni úr Ökutímum á geisladiski og kemur hann í verslanir mánudaginn 21. janúar nk. Geisladiskurinn inniheldur fimm frumsamin lög Lovísu við verkið ásamt átta tökulögum úr smiðju Dolly Parton sem jafnframt eru flutt í sýningunni. Lovísa vill nota tækifærið og leggja meira af mörkum til baráttunnar og umræðunnar gegn kynbundnu ofbeldi og hefur nú ákveðið að allur ágóðahlutur hennar af sölu geisladiskins muni renna til Aflsins á Akureyri. Einnig ánafnar Leikfélag Akureyrar ágóðahlut sínum af síðustu sýningu ársins á Ökutímum 30. desember til Aflsins.

Aflið var stofnað á Akureyri árið 2002 í framhaldi af tilraunastarfsemi Stígamóta þar sem í ljós kom mikil þörf fyrir samtök af þessu tagi. Starfsemin byggir á forsendum þolenda kynferðislegs ofbeldis og/eða heimilisofbeldis. Þolendur geta sótt stuðning og fræðslu hjá samtökunum. Aflið er fyrir alla sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og/eða heimilisofbeldi og aðstandendur þeirra s.s. maka, foreldra, systkini og vini sem óska eftir ráðgjöf og er öll þjónusta þeim að kostnaðarlausu. Lovísa mun formlega tilkynna fulltrúum Aflsins þessa ákvörðun sína í tengslum við umræðurnar á sunnudagskvöld. Í leiðinni hvetja Lovísa og Leikfélag Akureyrar fyrirtæki og einstaklinga til að kynna sér starf Aflsins og helst af öllu láta fé af hendi rakna til góðrar og þarfrar starfsemi þess.

Nýjast