Laxá Fiskafóður framleiddi um 11 þúsund tonn af fóðri í fyrra

Nýr fóðurtankur væntanlegur í júní og mun hann styrkja samkeppnisstöðu Laxár með umhverfisvænni afhe…
Nýr fóðurtankur væntanlegur í júní og mun hann styrkja samkeppnisstöðu Laxár með umhverfisvænni afhendingu sem sparar plastsekki og bretti Myndir Laxá

Reksturinn hjá Laxá Fiskafóður gekk vel á liðnu ári líkt og venja hefur verið undanfarin ár. Framleiðsla nam 11 þúsund tonnum og velta var 3.600 milljónir. Markaðshlutdeild fyrirtækisins í sölu á fiskeldisfóðri til landeldisstöðva fyrir seiði og matfisk er um 80%.

Gunnar Örn Kristjánsson framkvæmdastjóri segir að að eftirspurn eftir fóðri muni vaxa umtalsvert á næstu ári og miðar þá við áform landeldisstöðva um aukið matfiskeldi á komandi árum. „Eftirspurn eftir fóðri mun fara hraðvaxandi,“ segir hann. Framleiðslugeta verksmiðju Laxár Fiskafóðurs er með núverandi búnaði um 20 þúsund tonn.

 Horfa til þess að auka framleiðslu fiskafóðurs hérlendis

Gunnar Örn segir að sú hugmynd hafi verið til skoðunar að reisa nýja og stærri verksmiðju hérlendis, í samvinnu við erlendan aðila sem eru stórir í framleiðslu fiskafóðurs.  „Þær hugmyndir hafa verið settar í biðstöðu og erum þess í stað að skoða möguleika á að auka okkar framleiðslugetu á Krossanessvæðinu upp í 50 þúsund tonn til að mæta þeirri þróun og aukningu sem á sér stað í landeldinu á næstu árum,“ segir hann. 

 „Það er full þörf á nýrri og stærri verksmiðju hérlendis því við Íslendingar eru þegar að flytja inn um 60 þúsund tonn af fiskafóðri, en framleiðum innan við 14 þúsund tonn sjálf. Innflutningur mun því aukast til muna ef ekki kemur til ný verksmiðja hér á landi.“

 Gunnar Örn segir að til að anna aukinni framleiðslu í fiskeldi hér á landi þyrfti að reisa um 200 þúsund tonna fóðurverksmiðju, 10 sinnum stærri en þá sem Laxá Fiskafóður rekur nú. „Það er allt á hraðferð í fiskeldinu, annarsvegar í sjóeldinu sem mun fullnýta sýn 100 þúsund tonna eldisleyfi og hinsvegar landeldi á laxi þar sem í fyrsta áfanga er stefnt að 40 þúsund tonn framleiðslu.  Því verðum við að skoða hvaða leiðir eru færar til að bregðast við aðstæðum og þar koma inn umhverfismál hvað varðar kolefnaspor og svo framtíðar matvæla öryggi hérlendis.“

Gunnar Örn Kristjánsson


Athugasemdir

Nýjast