Lax með kavíarsósu og á pönnu með pasta

Þorleifur Stefánsson sjúkraþjálfari tók við keflinu af kollega sínum Gunnari Svanbergssyni og er hér mættur með innlegg í matarkrókinn. Þorleifur er með laxarétti enda segir hann bæði fljótlegt og gott að elda lax.   "Það er hægt að krydda laxinn á ýmsa vegu og matreiða hann þannig að tilbreyting sé í matargerðinni. Mér finnst aðalatriðið vera að eldamennskan sé einföld og auðveld fyrir leikmann eins og mig. Ekki kemur að sök að lax er meinhollur og okkur ráðlagt að borða slíkan fisk 1.-2. í viku. Hér á eftir koma tveir vinsælustu laxaréttirnir á mínu heimili."

Lax með kavíarsósu

1 laxflak 800-1000gr

sítrónupipar

½ sítróna

Byrjað er að beinhreinsa laxinn vel og síðan er hálf sítróna kreist yfir flakið. Látið standa í 5-10 mínútur.

Þá er sítrónupipar stráð yfir flakið og laxinn er tilbúinn í ofninn.

Hitið ofninn í 220°og bakið laxinn í 10-15 mínútur eftir þykkt flaksins.

Kartöflur

Eftir að kartöflurnar eru soðnar eru þær hakkaðar með hýðinu í venjulegri hakkavél og eru þannig bornar fram.

Sósa

Einni dós af  sýrðum rjóma er hrært saman við eina dós af kavíar t.d. Kavíar frá Ora 100gr. Hálfur laukur er fínt saxaður niður og bætt út í og sósan er tilbúin.

Borið fram með fersku salati.

 

Lax á pönnu með pasta

1 laxflak 800-1000gr roðflett og beinhreinsað,

            skorið í u.þ.b. 5 sm. þykkar sneiðar

            kreistið sítrónusafa yfir laxinn  og stráið síðan örlitlu salti og pipar.

            Látið standa meðan sósan er útbúin.

Sósa:

1 dós kókosmjólk (hálfdós)

2 matskeiðar karrímauk(Thai Curry Paste) eða eftir smekk.

safi úr hálfri sítrónu, sykur á hnífsoddi og salt

Setjið allt sósuefnið á pönnu og látið malla í nokkrar mínútur.

Setjið laxabitana út í og látið malla áfram í 5 mínútur

Stráið ferskum söxuðum kórínaderlaufum út í og látið malla áfram í 2-3 mínútur eða þar til laxinn er eldaður.

Borið fram með Tagliatelle pasta og fersku salati.

Þorleifur skorar á Rósu Kristjánsdóttur húsmóður að leggja til uppskriftir í matarkrók næstu viku.

Nýjast