Launamálin endurskoðuð

Halldór Jónsson, framkvæmdastjóri Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, segir ekkert eðlilegra en að greiða hjúkrunarfræðingum á FSA sömu laun og greidd eru hjúkrunarfræðingum á Landsspítala - háskólasjúkrahúsi fyrir samskonar vinnu. Þannig svarar hann þeim ásökunum að hjúkrunarfræðingar á FSA séu með umtalsvert lægri laun en starfssystur þeirra í Reykjavík. Halldór segir að í könnun sem FSA er að láta framkvæma séu komnar fram vísbendingar um að einstaklingar á sjúkrahúsunum tveimur raðist ekki í launaflokka á sama máta. Hann leggur þó áherslu á að unnið sé eftir stofnanasamningi og launaliðum þar fylgt. „Við erum alls ekki að halda eftir fé sem annars færi til þeirra sem hér starfa,“ segir Halldór. - „Komi í ljós að um sé að ræða óútskýrðan launamun milli starfsfólks FSA og LSH mun það óhjákvæmilega kalla á leiðréttingu og þar með nauyðsyn þess að FSA fái til þess aukna fjármuni," segir í yfirlýsingu FSA um málið.

Nýjast