Lára Sóley bæjarlistamaður Akureyrar
Val á bæjarlistamanni Akureyrar 2015-2016 var tilkynnt í dag á Vorkomu Akureyrarstofu og varð tónlistarkonan Lára Sóley Jóhannsdóttir þess heiðurs aðnjótandi. Fjöldi spennandi verkefna bíða Láru Sóleyjar, m.a. tilraunir með samruna raftónlistar og klassískrar tónlistar. Við sama tækifæri voru veittar viðurkenningar Húsverndarsjóðs og Byggingalistaverðlaun.
Viðurkenningu Húsverndarsjóðs hlaut Hús Hákarla Jörundar í Hrísey en einnig fékk Ásgeir Halldórsson sérstaka viðurkenningu Húsverndarsjóðs fyrir ómetanlegt framlag sitt og elju við endurbyggingu hússins. Byggingalistaverðlaun Akureyrar fékk arkitektastofan Kollgáta fyrir Íþróttamiðstöðina í Hrísey.
Heiðursviðurkenning Menningarsjóðs var veitt tveimur einstaklingur sem hafa með framlagi sínu stutt við og auðgað menningarlíf bæjarins. Þetta eru myndlistarkonan Iðunn Ágústsdóttir sem lauk nýlega umfangsmikilli einkasýningu í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, og Gunnar Frímannsson sem hefur komið að starfi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá upphafi og lagt sitt lóð á vogarskálarnar við uppbyggingu sveitarinnar.
Á Vorkomunni veitti atvinnumálanefnd Akureyrar einnig atvinnu- og nýsköpunarviðurkenningar. Kælismiðjan Frost ehf hlaut athafnaviðurkenningu Akureyrarbæjar. Fyrirtækið hefur verið í fararbroddi í uppbyggingu og þjónustu kælikerfa frá árinu 1993, en á rætur að rekja til ársins 1984. Fyrirtækið er stærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og sinnir verkefnum og þjónustu um allt land, sem og erlendis.
Nýsköpunarviðurkenningin kom í hlut fyrirtækisins Sveinbjargar sem stofnað var árið 2007. Fyrirtækið framleiðir íslenskar hönnunarvörur og hefur verið í örum vexti síðustu ár. Vörulína fyrirtækisins er hönnuð af Sveinbjörgu Hallgrímsdóttur myndlistarkonu og eru ríflega 140 ólíkar vörur úr smiðju hennar selddar bæði á Íslandi og erlendis.