Landsmenn flykkjast til Grímseyjar

Ferðaþjónustuaðilar í Grímsey eru hæstánægðir með áhuga Íslendinga á eynni.
Ferðaþjónustuaðilar í Grímsey eru hæstánægðir með áhuga Íslendinga á eynni.

„Það er miklu meira að gera en við bjuggumst við. Þetta er bara geggjað, líf og fjör í eyjunni og létt yfir öllum,“ segir Halla Ingólfsdóttir í Grímsey. Halla siglir með ferðalanga í Grímseyjarferjunni til og frá eynni og rekur auk þess ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Trip í Grímsey sem býður upp á ýmsa afþreyingu í og við eyjuna. Hún segir að sumarið hafi verið mun betra hingað til en nokkur þorði að vona.

„Þetta er meirihlutinn Íslendingar. Við áttum alveg von á því að landsmenn myndu ferðast hingað í sumar en bjuggumst ekki við þessum hvelli. Þeir stoppa líka í nokkra daga, ólíkt mörgum erlendum ferðamönnum sem koma oft bara í dagsferðir. Íslendingarnir eru heldur ekkert að nesta sig fyrir ferðalagið og njóta þess frekar að vera í fríi og kaupa veitingar. Þar af leiðandi hefur verið nóg að gera í veitingasölu. Hér eru allir í skýjunum með þetta,“ segir Halla. Þrjú gistiheimili eru í Grímsey og segir Halla að hennar tilfinning sé sú að fleiri gistinætur séu þetta sumar en fyrir árið síðan. „Ég nánast fullyrði það,“ segir Halla og bætir við að flestir stoppi yfir tvær nætur. „Fólkið sem kemur hingað er á öllum aldri og talsvert af fjölskyldufólki og stærri hópum.“ Þá hefur veðrið verið með ágætasta móti í sumar að sögn Höllu. „Þetta hefur verið betra sumar verðursfarslega en í fyrra og við þurftum svo sannarlega á því að halda.“   

Halla Ingólfsdóttir

Kalla út auka mannskap í ferjuna

Grímseyjarferjan siglir á milli lands og eyja fimm daga vikunnar yfir sumartímann. Halla segir sjaldan eða aldrei hafið verið jafn mikið líf í ferjunni og nú í sumar og oft hafi þurft að kalla út auka mannskap. „Við höfum glímt við ákveðið lúxusvandamál í ferjunni þar sem við erum bara fimm í áhöfn en þurfum að vera sex ef fjöldinn fer yfir 70 manns sem hefur verið tilfellið. Þá höfum við þurft að kalla út auka mannskap. Flestir áttu von á því að það yrðu að meðaltali 5-15 manns í ferjunni á dag og við reiknuðum allt eins með því að sigla með tóma ferju einhverja daga. En það hefur ekki gerst síðan sumartímabilið byrjaði að ferjan sé tóm. Algengur fjöldi hefur verið á bilinu 35-50 manns sem er miklu meira en ég gat látið mig dreyma um í vor,“ segir Halla Ingólfsdóttir.   


Athugasemdir

Nýjast