Lækka launakostnað um 80 milljónir

Akureyri.
Akureyri.

Bæjarstjórn Akureyrar hefur samþykkt tillögu að stjórnsýslubreytingum sem taka gildi um næstu áramót. Breytingarnar fela í sér að sviðum verður fækkað um eitt og verða frá og með 1. janúar 2022 þessi; Fjársýslusvið, Fræðslu- og lýðheilsusvið, Mannauðssvið, Umhverfis- og mannvirkjasvið, Velferðarsvið og Þjónustu- og skipulagssvið.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir í svari við fyrirspurn Vikublaðsins að breytingunum munu óneitanlega fylgja einhverjar uppsagnir. Guðmundur segir einnig að þetta séu óhjákvæmilegar aðgerðir.

„Við höfum sett okkur það markmið að ná sjálfbærni í rekstri á næstu árum og til þess þarf að taka ákvarðanir sem draga úr rekstrarkostnaði. Þær stjórnsýslubreytingar sem við erum að ráðast í nú eru í samræmi við samstarfssáttmála bæjarstjórnar frá því í september sl. þar sem markmið var sett um að einfalda stjórnsýslu og sameina svið.  Breytingarnar nú eru í raun framhald á þeim stjórnsýslubreytingum sem við réðumst í á árinu 2017,“ segir Guðmundur Baldvin.

Akureyrarstofa lögð niður

Á þjónustu- og skipulagssviði verða ákveðnir þættir innri og ytri þjónustu við íbúa færðir saman á eitt svið með áherslu á aukna stafræna innleiðingu og þjónustu. Akureyrarstofa í þeirri mynd sem hún er í dag verður lögð niður en verkefni hennar færast til hins nýja þjónustu- og skipulagssviðs. „Sameining upplýsingagjafar, atvinnumála og skipulags undir eitt svið gefur einstakt tækifæri til þess að horfa á skipulagsmálin til framtíðar, uppbyggingu og framþróun Akureyrar,“ segir á vef bæjarins.

Samhliða stjórnsýslubreytingunum verður kjörnum ráðum og nefndum sveitarfélagsins breytt. Frístundaráð og stjórn Akureyrarstofu verða lögð niður. Málefni frístundaráðs færast til fræðslu- og lýðheilsuráðs en málefni stjórnar Akureyrarstofu til bæjarráðs.

Lækka launakostnað

Þá liggur einnig fyrir að lækka þarf launakostnað innan sveitarfélagsins og segir Guðmundur Baldvin að við þessar breytingar sé gerð ráð fyrir að lækka launakostnað um a.m.k.  80 milljónir króna vegna tilfærslu verkefna. „Auk þess sem við munum fækka verkefnum sem ekki teljast lögbundin. Þá munum við líka ná fram lækkun á nefndarlaunum,“ segir Guðmundur Baldvin.

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast