Um var að ræða tilboð í jarðvegsframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli á vegum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar en tilboðin voru opnuð í gær. Fyrirtækið Nesprýði átti lægsta tilboð í verkið en það hljóðaði upp á rúma 41 milljón króna, eða 38,8% af kostnaðaráætlun, sem var tæpar 105,9 milljónir króna. ÍAV hf. bauð um 52,2 milljónir króna, eða 49,4% af kostnaðaráætlun og GV Gröfur buðu tæpar 60 milljónir króna í verkið eða 56,6% af kostnaðaráætlun. Urð og grjót ehf. bauð 56,7% af kostnaðaráætlun, Ístak hf. bauð 60,3% af kostnaðaráætlun og Suðurverk hf. bauð 101% af kostnaðaráætlun.
Alls skiluðu 15 fyrirtæki inn forvalsgögnum vegna útboðsins í byrjun nóvember og af þeim var sex boðið að leggja fram tilboð í verkið. Guðmundur segir að þetta séu vissulega lágar tölur miðað við kostnaðaráætlun verkkaupa. "Fyrirtæki í verktakastarfsemi lifa ekki af ef þetta verður áfram á þessum nótum." Hann segir að ekki sé útlit fyrir að miklar framkvæmdir verði á vegum Akureyrarbæjar á næsta ári og það er ástæðan fyrir því að fyrirtæki hans leitar verkefna á öðrum landssvæðum.