Kynningarfundir um sameiningu Arnarneshrepps og Hörgárbyggðar

Með því að sameina sveitarfélögin Arnarneshrepp og Hörgárbyggð má bæta þjónustu við íbúa og atvinnulífið, m.a. með tímabundnum framlögum úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga, með sparnaði sem hlýst af hagræðingu í yfirstjórn og með varanlegri hækkun sem verður á ákveðnum framlögum Jöfnunarsjóðs við sameiningu sveitarfélaga.  „Þeim fjármunum sem þannig skapast yrði varið til að efla atvinnulífið og styrkja almenna þjónustu við íbúana."  

Sameining til sóknar; er heiti á bæklingi sem dreift hefur verið inn á öll heimili í Arnarneshreppi og Hörgárbyggð, en í honum er m.a. að finna málefnaskrá, áhersluatriði og hugleiðingar vegna kosninga um sameiningu hreppanna tveggja 20. mars nk.  Kynningarfundir um sameininguna verða haldnir í Hlíðarbæ í þessari viku, á miðvikudag- og fimmtudagskvöld kl. 20.30 þar sem Kristján L. Möller ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála verður gestur.

Gert er ráð fyrir að í hreppsnefnd sameinaðs sveitarfélags verði fimm fulltrúar og að skrifstofu þess verði fundin staður sem uppfyllir kröfur varðandi aðgengi og þjónustu. Þá verður þjónustumiðstöð komið fyrir á Hjalteyri þar sem verður starfsmaður sem hefur m.a. með umsjón og umsýslu eigna sveitarfélagsins að gera.  Þess er vænst að framlag fáist úr Jöfunarsjóði til að standa straum af þeim aukna kostnaði sem sú starfsemi hefur í för með sér. 

Fram kemur að sameinað sveitarfélag muni hafa það að markmiði að styrkja grunngerð atvinnulífsins og skapa umhverfi sem auðveldar núverandi og nýjum fyrirtækjum brautargengi.  Öflugur landbúnaður verður áfram í öndvegi innan sameinaðs sveitarfélags, en nýjungar á því sviði hafa verið að ryðja sér til rúms sem taldar eru styrkja stöðu greinarinnar enn frekar.  Þá líta menn til möguleika ferðaþjónustunnar, m.a. í tengslum við menningarsögulega staði.  Sjávarútvegur hefur ekki verið fyrirferðamikill innan sveitarfélaganna, en horft er til bættra sjóvarna á Hjalteyri sem skapa hugsanlega forsendur fyrir útgerð þaðan á ný auk vinnslu sjávarafurða.  Hvað aðra atvinnustarfsemi varðar bera hæst þær hugmyndir að nýta iðnaðarlóð við Dysnes undir mannaflafreka starfsemi og þá er stefnt að því að hraða sem kostur er könnun á virkjun jarðhita í Hörgárdal og Öxnadal.

Nýjast