Kveður Samherja eftir 30 ára starf

Óskar Ævarsson.
Óskar Ævarsson.

Óskar Ævarsson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri útgerðarsviðs Evrópuútgerðar Samherja. Frá þessu er greint á vef Samherja. Óskar hóf störf hjá Samherja í maí 1989 sem yfirvélstjóri á Hjalteyrinni EA310 og var síðan yfirvélstjóri á ýmsum skipum Samherja allt þar til hann kom í land árið 1997.

Hann flutti til Grindavíkur og tók við rekstri Fiskimjöls & Lýsis, en það fyrirtæki var þá í eigu Samherja en rann síðar inn í Samherjasamstæðuna, meðan Óskar hafði yfirumsjón með rekstrinum. Árið 2006 lagði Óskar land undir fót og flutti með fjölskylduna í nágrenni Cuxhaven í Þýskalandi, þar sem hann réð sig sem framkvæmdastjóra útgerðasviðs EU útgerðar Samherja. Þar hefur Óskar staðið í brúnni í nærri 14 ár og meðal annars haft yfirumsjón með nýsmíðaverkefnum.

„Þetta eru búin að vera góð ár og í raun forréttindi að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í ,,Samherjaævintýrinu“. Þessi tími hefur verið mjög skemmtilegur en líka mjög krefjandi,“ segir Óskar á vef Samherja.


Athugasemdir

Nýjast