Upphafið af fjárhagslegum vandræðum Leikfélags Akureyrar hófst með ráðningu Maríu Sigurðardóttur leikhússtjóra fyrri hluta árs 2008 og Egils Arnar Sigurþórssonar framkvæmdastjóra um mitt það sama ár. Staða framkvæmdastjóra var ekki auglýst eins og áskilið er í samþykktum LA. María hafði mjög litla reynslu af rekstri og fjármálum og Egill hafði við ráðningu enga menntun á sviði fjármála og bókhalds en að sögn einhverja reynslu. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í úttekt á fjárhagsstöðu LA, sem lögð var fram á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun.
Tilefni þessarar vinnu var rekstrarniðurstaða LA rekstrarárið 2010-2011 og beiðni félagsins um lán til að geta haldið rekstrinum áfram. Haldnir voru fundir með öllum aðilum málsins og aflað gagna svo sem ársreikninga LA, fundargerða stjórnar félagsins og fleira. Þá var fundað með fjölmörgum aðilum. Má þar nefna fyrrverandi leikhússtjóra, fyrrverandi framkvæmdastjóra, fyrrverandi stjórnarmenn, endurskoðanda reikninga LA, núverandi stjórnarformann og fulltrúa Akureyrarbæjar.
Fram kemur í úttektinni að leikhússtjóri hafði fengið allmargar kvartanir frá bókara LA um að bókhald félagsins væri ekki í lagi allt frá hausti 2010, þar sem hún taldi að það vantaði ýmsan kostnað sem eftir væri að færa. Einnig höfðu leikhússtjóra og einstökum stjórnarmönnum borist upplýsingar um að ýmsir reikningar væru ógreiddir. Engu að síður tók leikhússtjóri og stjórn ekki í taumanna gagnvart framkvæmdastjóra fyrr en í byrjun júlí 2011. Vissulega hafði leikhússtjóri þann fyrirvara við ráðningu sína að hún hefði ekki bókhaldslega þekkingu en hún hefði getað leitað sér aðstoðar endurskoðenda eða annarra sérfróðra manna til að kanna hvort fjármál og bókhald LA væri með eðlilegum hætti.
Einnig segir að þegar fyrrverandi framkvæmdastjóri stóð frammi fyrir fjárhagserfiðleikum, sem hann hafði að mati þeirra sem gerðu úttektina, hvorki menntun né næga reynslu til að sjá í heild, leitaði hann sér ekki hjálpar og leyndi samstarfsfólk sitt og stjórn LA upplýsingum um stöðuna, viljandi eða óviljandi. Hann lét ekki bókarann fá alla reikninga sem komu til LA og við starfslok hans fannst á skrifborði framkvæmdastjóra nokkuð af óbókuðum og ógreiddum reikningum. Hann blandaði líka orðið saman eigin fjárhag og fjárhag LA og slíkt kann aldrei góðri lukku að stýra, segir í úttektinni.
Ennfremur segir í úttektinni: Í þessum rekstri sem öðrum er nauðsynlegt að bókhaldið sé uppfært á hverjum tíma og að sem minnst af reikningum, sem ágreiningur er um, sé óbókað um hver mánaðamót. Því var ekki gott að laun voru ekki færð reglulega inn í aðalbókhald LA og að reikningar lágu óbókaðir hjá framkvæmdastjóra. Yfirstjórn hafði því ekki alltaf heildarsýn yfir stöðuna á hverjum tíma og sum uppgjör röng sem kynnt voru fyrir stjórn.
Endurskoðandi LA sendi endurkoðandabréf til stjórnar LA en þau bréf voru aldrei lögð fram á stjórnarfundum. Hann hefur líklega sjaldan eða aldrei hitt fyrrverandi stjórnarformann og ekkert samband haft að fyrra bragði við hann. Þrátt fyrir að svokölluð Jónsbók hafi verið í Landsbankanum á kennitölu LA og PWC formlegir endurskoðrendur félagsins þá segist endurskoðandi LA aldrei hafa endurskoðað þennan bankareikning og telur það ekki heldur hafa verið í verkahring PWC. Sá bankareikningur hlýtur þó að hafa verið hluti af fjárreiðum félagsins, segir í úttektinni.
Einnig kemur þar fram að LA hafi yfirleitt sent inn 6 mánaða rekstraruppgjör til Akureyrarbæjar en að þau uppgjör hafi því miður ekki verið alltaf rétt. Þá kemur fram að fundargerðir stjórnar LA fyrir 2009-2011 hafi verið afhentar. Fundargerðir séu ekki númeraðar og því sé erfitt að vita hvort einhverjar fundargerðir vantar.
Fram kemur í úttektinni að aðal orsök fjárhagslegu vandræðanna hafi verið ákvörðun um að fresta sýningunni á Rocky Horror, (RH). Fresturinn hafði í för með sér nærri tvöfaldan launakostnað auk þess sem Hof var ekki alveg tilbúið fyrir svona stóra sýningu. Það hafði líka í för með sér ýmsan viðbótarkostnað fyrir LA. Kostnaðareftirliti virðist líka hafa verið ábótavant, segir úttektinni. Á ársreikningi 2009/2010 voru 34 milljónir króna fluttar á milli ára (á 2010/2011) vegna RH. Í ársreikningi LA fyrir starfsárið 2010/2011 kemur fram að tap á RH var 52,6 milljónir króna. Mestur hluti þessa kostnaðar hefði þó átt að vera fyrirsjánlegur ef bókhaldið og áætlanagerðin hjá LA hefði verið í lagi, segir ennfremur.
Í úttektinni segir að framkvæmdastjóri hafi brugðist hlutverki sínu þegar fór að ganga illa í rekstrinum. Það sýnir sig enn og aftur að það var mannlegi þátturinn sem bregst. Það getur alltaf gerst og er þá enn verra þegar samið er við félagsskap sem hefur yfirleitt ekki fjárhagslega getu til að bera neina raunverulega ábyrgð þegar einhver lykilstjórnandi hjá félaginu bregst skyldum sínum. Skaðinn getur verið svo fljótur að gerast. Það virðist líka hafa verið óljóst hver átti að hafa eftirlitið með samningnum af hálfu Akureyrarbæjar og með hvaða hætti eftirlitið átti í raun að vera, segir í úttektinni.
Útektin var unnin af Karli Guðmundssyni verkefnastjóra og Jóni Braga Gunnarssyni hagsýslustjóra. Fram kemur í bókun bæjarráðs í morgun að ráðið lítur svo á að vinnuhópur sem stofnaður var í september 2011 hafi lokið störfum og að málið sé í höndum stjórnar Akureyrarstofu.