Kústarnir frá Akureyri eru Íslandsmeistarar í krullu árið 2007, en þeir lögðu Bragðarefi, sem einnig koma frá Akureyri, í úrslitaleik um titillinn 7-3. Þetta er í fyrsta skipti sem Kústarnir verða Íslandsmeistarar en liðsmenn Kústanna, þeir Eiríkur Bóasson, Gunnar H. Jóhannesson, Kristján Þorkelsson, Ólafur Hreinsson og Pálmi Þorsteinsson, eru allir starfsmenn Vegagerðarinnar á Akureyri og hófu allir að iðka íþróttina í ársbyrjun 2003.
Fálkar nældu sér í bronsið en liðið kom inn í b-úrslitin vegna forfalla hjá liði úr Reykjavík sem átti réttinn. Fálkar nýttu sér þetta tækifæri, unnu b-úrslitin og sigruðu síðan Fífurnar í úrslitaleik um bronsið, 7-5.
Undankeppni Íslandsmótsins fór fram á tveimur stöðum nú eins og í fyrra, annars vegar hjá Krulludeild Skautafélags Akureyrar þar sem tíu lið tóku þátt og hins vegar hjá Krulludeild Þróttar í Reykjavík þar sem fjögur lið kepptu. Þrjú lið frá Akureyri og eitt úr Reykjavík unnu sér rétt til að leika í a-úrslitum. Vegna forfalla sunnanmanna voru það síðan fjögur lið frá Akureyri sem léku í b-úrslitum.
Þetta var í sjötta sinn sem leikið var um Íslandsmeistaratitilinn í krullu og hefur alls 31 leikmaður unnið titilinn. Sá sem oftast hefur unnið er Sigurgeir Haraldsson en hann hefur fjórum sinnum orðið Íslandsmeistari.