Kryddlærin sífellt vinsæl

„Grillsumarið er í raun löngu byrjað þrátt fyrir frekar kalt vor,“ segir Gunnlaugur Eiðsson framkvæmdastjóri hjá Kjarnafæði. Þegar vorar færist eldamennska landans gjarnan út á pallinn eða á svalirnar, enda Íslendingar annálaðir grillarar. „Ég held að fólk fari ósjálfrátt að finna fyrir löngun til að grilla í kringum páska, alveg sama hvernig viðrar. Þessi neyslubreyting heldur svo áfram jafnt og þétt inn í sumarið enda fátt eitt skemmtilegra en að borða góðan mat í góðra vina hópi. Grill er mjög þægilegur eldunarmáti, bragðgóður matur og allur frágangur fremur léttur,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir neyslumynstur landans jafnan svipað á milli ára. „En við hjá Kjarnafæði komum alltaf fram með einhverjar nýjungar á hverju sumri, t.d. má nefna nautamínútusteikina í ár sem er frosin og ókrydduð. Það er steik sem er fljót að þiðna og fólk kryddar að eigin smekk.“ Um vinsælustu vörurnar á grillið segir Gunnlaugur:

„Hamborgarar, grill pylsur, lambalærissneiðar og svínakótilettur seljast alltaf mikið. Svo eru kryddlærin sífellt vinsæl,“ segir Gunnlaugur.

throstur@vikudagur.is

Nýjast