Kristján syngur í Háskólabíói í nóvember

Í ár fagnar Kristján Jóhannsson þeim merka áfanga að þrjátíu ár eru liðin frá því að hann söng í sinni fyrstu óperu. Af því tilefni efnir Kristján til veglegra afmælistónleika í Háskólabíói, föstudaginn 27. nóvember. Með Kristjáni syngja nokkrir glæsilegustu söngvarar landsins, þær Sigrún Hjálmtýsdóttir, Diddú, og Þóra Einarsdóttir og Gissur Páll Gissurarson tenór.  

Það er Kammersveit Hjörleifs Valssonar, sem skipuð er framúrskarandi hljóðfæraleikurum, úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, meðal annars, sem leikur undir. Á efnisskrá tónleikanna  eru óperuaríur, óperudúettar sem og þekktar söngperlur. Til stóð að tónleikarnir yrðu á Akureyri í byrjun desember en þeir hafa nú verið færðir til  páska og verða nánar auglýstir síðar. Það er því um að gera að skella sér suður fyrir jólin og hlýða á Kristján og félaga á frábærum tónleikum í Háskólabíó, segir í fréttatilkynningu. Þrjátíu ár eru nú liðin frá því að Kristján söng sitt fyrsta hlutverk í óperu en hann debúteraði sem Rodolfo í La Boheme í Aosta á Ítalíu. Ferill Kristjáns Jóhannssonar er fyrir margra hluta sakir stórmerkilegur.  Hann er ekki aðalsmaður sem fæddist inn í óperuheiminn með þá vissu að hans biði ferill sem lýrískur tenór. Hann er kominn af tónelskri alþýðufjölskyldu þar sem íslensk sönghefð á djúpar rætur og var orðinn tvítugur þegar hann hóf tónlistarnám af fullum krafti. Undir leiðsögn Sigurðar Demetz og fleiri góðra manna óx Kristján sem söngvari og á endanum kaus hann að  freista gæfunnar og hélt utan til frekari náms og landvinninga. Þess var heldur ekki lengi að bíða að Akureyringurinn ungi fór að vekja mikla athygli hinum alþjóðlega óperuheimi þar sem hann stendur nú föstum fótum sem einn hinna stóru. Þess má geta að í bókinni 100 Greatest Opera Singers, sem gefin er út af Mondadori forlaginu í Róm, var Kristján nefndur sem ein hinna tíu bestu í heiminum, og talin, auk Placido Domingo og Mario Del Monaco, besti Óþelló sögunnar.

Það er of langt mál að telja upp afrek Kristjáns í óperu- og tónlistarhúsum um víða veröld, sigrar hans og viðtökur gagnrýnenda hafa yfirleitt verið á eina lund, hvort heldur sem er í Metropolitan óperunni, á Scala í Covent Garden eða í Carnegie Hall. En nú er Kristján Jóhannsson kominn aftur heim og mun dvelja hér næstu tvö árin. Á þeim tíma munu margir njóta starfskrafta hans, en Kristján kennir um þessar mundir í söngskóla Sigurðar Demetz  og hefur haldið masterclassa í Söngskólanum í Reykjavík fyrir næstu kynslóð söngvara. Kristján á þá ósk heitasta að koma fleiri Íslendingum á framfæri og sjá þá ná árangri á alþjóðlegum vettvangi óperuheimsins.

Nýjast