Kraftaverk í Kristnesi

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Ég fór út úr húsi eftir kvöldmat á fimmtudagskvöldið, og það þykja tíðindi á mínu heimili. Yfirleitt eru það leiksýningar eða tónleikar sem ná að draga mig frá kvöldværðinni heima en svo hefur Covid auðvitað dregið stórlega úr því líka. Leiksýningin sem náði mér að heiman að þessu sinni var reyndar aðeins með 10 áhorfendum og allir voru þeir með grímu enda sjúk dómurinn sem fjallað var um áka flega smitandi, ekkert síður en sá sem hefur lagt undir sig veröldina um þessar mundir.

Þessi áhrifaríka sýning minnti mig á að fordómalausir eru tímarnir sannarlega ekki, því oft áður hefur veröldin glímt við farsóttir,-berklarnir eru rétt handað við fortíðarhornið. Þá lést ungt fólk í blóma lífsins, sumir báru mein alla ævi, sóttkvíði og smithræðsla réðu ríkjum ekki síður en núna. Stutt skilaboð frá núverandi sóttvarnarlækni í lok sýningarinnar undirstrikuðu líkindi berklafaraldursins við Covidtímana. Ekki síður hafði um gjörð þessarar látlausu sýningar mikil áhrif á mig persónulega.

Ég hef sjálf nýverið dvalið á Kristnesspítala í endurhæfingardvöl og varð mér þá mjög oft hugsað til þess hvernig var að vera berklasjúk lingur þar, þegar þessi glæsilega bygging var nýrisin. Enn í dag dvelja hversdagshetjur í Kristnesi og ég var þar í þrjár vikur samferða fólki sem fyllti mig djúpri aðdáun. Fólki sem hefur orðið fyrir þungum áföllum, slysum og sjúkdómum en lifir í æðruleysi og hefur húmor fyrir eigin baráttu. Þetta fólk, ekkert síður en sýningin um berklana minnir mig á þá staðreynd að lífið er dásamlegt og þess virði að við berjumst fyrir góðri tilveru upp á hvern dag. Ég keyrði heim þetta kvöld undir fullum mána, sátt við góða sýningu á kraftaverkastaðnum Krist nesi. Ég held að lærdómur þessa kvölds snúist sem oft áður, um að muna eftir því hversu brothætt og dýrmætt lífið er. Fortíðin er farin og framtíðin er ókomin,- núið er núna, njótum þess. 

-Inga Dagný Eydal


Athugasemdir

Nýjast