Krafa um að afkoma heimila í landinu verði tryggð

Á 31. þingi Alþýðusambands Norðurlands um síðustu helgi, var samþykkt ályktun, þar sem þess er krafist að nú þegar verði afkoma heimila í landinu tryggð. Háir vextir, mikil verðbólga, fall krónunnar, lækkun húsnæðisverðs og versnandi atvinnuástand hafa skilið fjölmargar fjölskyldur og einstaklinga eftir á barmi eignamissis og gjaldþrots auk þeirra sem nú þegar hafa misst allt sitt.   

Þingið gagnrýnir þann seinagang sem einkennt hefur vinnubrögð stjórnvalda og peningastofnana er varða málefni fjölskyldufólks og einstaklinga, en loks hafa stjórnvöld vaknað til lífsins og fagnar þingið þeim hugmyndum sem félagsmálaráðherra hefur kynnt vegna leiðréttingar á greiðslubyrði lána. Þingið hvetur ráðamenn þjóðarinnar til að útfæra þær nánar og koma í framkvæmd sem allra fyrst. Líta ber á aðgerðir þessar sem fyrsta skref til leiðréttingar á greiðsluvanda heimilanna í landinu. Verði ekkert að gert nú þegar, blasir við fjöldagjaldþrot hjá íslenskum heimilum.

Fjölskyldan er hornsteinn þjóðfélagsins sem hlúa ber að með öllum tiltækum ráðum. Leggja þarf höfuðáherslu á að sem víðtækust sátt náist um þær aðgerðir sem framundan eru. Samstaða þegna þessa lands er grundvöllur þess að friður ríki um lausn mála á komandi misserum. Þá verða stjórnvöld einnig að gæta þess að fyrirhugaður niðurskurður bitni sem minnst á þeim hópum sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu, segir ályktun þingsins.

Nýjast