Kostnaður við eldsneytiskaup gæti lækkað um 12 milljónir króna

Aukin slysahætta fylgir ferðum um Víkurskarð, hér er einn af tankbílum MS-Akureyri sem valt í skarði…
Aukin slysahætta fylgir ferðum um Víkurskarð, hér er einn af tankbílum MS-Akureyri sem valt í skarðinu austanmegin í fyrravetur.

Vaðlaheiðagöng stytta leiðina frá Akureyri yfir í Fnjóskadal um 15,5 kílómetra.  Mjólkurbílar frá MS-Akureyri fara rúmlega 30 ferðir í viku yfir Víkurskarð.  Með tilkomu ganganna myndi fyrirtækið spara frá 9 til 12 milljónir króna árlega í eldsneytiskostnað Þetta kom fram í máli Sigurðar Rúnars Friðjónssonar mjólkurbússtjóra hjá MS Akureyri á fundi Samtaka atvinnurekenda sem haldinn var nýlega. Mjólkursamsalan er með stærstu flutningsaðilum hér á landi en er öll mjólk er sótt til framleiðenda hvar á landinu sem er á sérútbúnum tankbílum.  Að auki dreifir fyrirtækið vörum sínum til viðskiptavina, en kaupir einnig þjónustu frá verktökum. Sigurður Rúnar segir að fyrirtækið hafi náð ágætis árangri í rekstri bílflotans þrátt fyrir þrengingar undanfarinna ára, tækjakosturinn hafi stækkað og aðlagast þeim verkefnum sem sinnt er. Eins hafi leiðir verið sameinaðar og gripið til fleiri ráðstafana til að ná fram hagræðingu.

Sigurður Rúnar segir að með tilkomu Vaðlaheiðaganga gæti fyrirtækið náð enn meiri sparnaði í rekstri, en tankabílar á vegum MS Akureyri fara rúmlega 30 ferðir á viku yfir Víkurskarð. Sparnaður í eknum kílómetrum nemur allt að 30 þúsund kílómetrum á ári og í peningum talið getur hann numið allt að 12 milljónum króna á ári. 

„Olíukostnaður er mikill, á Vikurskarði þarf að fara um  brattar brekkur sem hefur í för með sér meiri brennslu á olíu og einnig meira slit á bílum en í venjulegum akstri,“ segir Sigurður Rúnar. Hann nefnir líka að oft verði tafir vegna veðurs og af þeim hljótist umtalsverður aukakostnaður sem og óþægindi, en krafa nútímans sé hraði og öryggi þjónustunnar. Þá fylgi aukin slysahætta ferðum um Víkurskarð einkum að vetrarlagi.

Nýjast