Páll Alfreðsson byggingameistari, sem átti eina tilboðið sem barst í trésmíðavinnu við menningarhúsið sem er í byggingu á Akureyri, viðurkennir að tilboð fyrirtækisins hafi verið í hærri kantinum en hins vegar hafi kostnaðaráætlunin verið mjög lág. Hermann Jón Tómasson formaður stjórnar Fasteigna Akureyrarbæjar, sem bauð verkið út, sagðist hálf miður sín yfir þeim tölum sem bárust í útboðinu og að niðurstaðan setti strik í reikninginn varðandi húsið.
Það vakti mikla athygli þegar tilboðin í húsið voru opnuð að tilboð Páls í trésmíðavinnuna var 208% miðað við kostnaðaráætlun, tilboð í múrverk voru 233% og 264% miðað við kostnaðaráætlun, tilboð í málun allt uppundir 200% miðað við áætlun en tilboð í aðra verkþætti s.s. pípulögn, loftræstingu, raflögn og stálsmíði voru innan „eðlilegra" frávika miðað við útboð yfirleitt. Páll segir ekki aðeins að kostnaðaráætlunin hafi verið mjög lág, heldur segir hann að hún hafi verið „út úr kortinu" eins og hann orðaði það.
„Ég get nefnt sem dæmi tæplega 160 fermetra færanlegan fellivegg sem í áætluninni var metinn á 3 milljónir króna en hjá okkur kom hann út á 9 milljónir þegar við vorum komnir með tilboð í vegginn erlendis frá. Mitt tilboð var hátt, enda verkið afar flókið og ekki spennandi. Ég sendi þetta tilboð inn vegna þess að það er spennandi að fara í þetta verk út af „egóinu". En kostnaðaráætlanir varðandi húsið eru allt of lágar, það sést best á því að tilboð í aðra verkþætti voru líka mikið hærri en áætlanirnar og ekki erum við allir sem sendum inn tilboð að gera mistök," sagði Páll.
„Það verður að hafna þessum tilboðum sem voru langt yfir kostnaðaráætlunum, en það þarf að fara vel yfir málið og sjá hvað veldur þessu misræmi, hvort ónákvæmni hjá hönnuðum hússins hefur haft þar sitt að segja. Ég veit ekki hvað þetta mun þýða varðandi byggingu hússins en vonandi vinnum við okkur úr þessu," sagði Hermann Jón Tómasson.