Kostir þess að rata ekki

Brynhildur Þórarinsdóttir.
Brynhildur Þórarinsdóttir.

Brynhildur Þórarinsdóttir heldur um áskorendapennan að þessu sinni.

Ég rata ekki neitt. Það hefur ótal kosti í för með sér. Ég kynntist manni í Stokkhólmi þegar ég dvaldi þar í mánuð við að skrifa bók. Við hittumst í veislu, ætluðum að fara á bar en ég fann ekki neina bari í hverfinu mínu svo við neyddumst til að fara heim í drykk. Samt bjó ég í 101-Stokkhólmi þar sem voru barir á hverju strái.

Ég fór með þessum manni í ferðalag út í sænska sveit. Við fórum í göngutúr í skóginum. Eftir tveggja klukkutíma ráf áttaði ég mig á því að ég hafði fundið mann sem var jafn villugjarn og ég. Hann bjó í Ameríku og þangað lá leiðin. Við fórum í amerískan bíltúr, þeir eru mjög langir, áttum bókaða gistingu við Michigan vatn, þremur fylkjum frá okkur. Michigan vatn er mjög stórt, stærra en Slóvakía. Við ókum hring eftir hring en fundum ekki vatnið, enduðum á að berja dyra á vegamóteli þegar myrkrið hvolfdist yfir. Í dagsbirtu hefðum við aldrei beðist gistingar á þessu móteli. Nú á ég efni í sögu sem barnabókahöfundur getur ekki sent frá sér.

Þarna var fyrsta stórákvörðun sambands okkar tekin. Annað okkar yrði að þjálfa upp ratvísi. Ég sagði pass. Nú stúderar hann kort og skipuleggur ferðir, vitandi það að konan hans mun aldrei gera það. Þetta er fullkomið fyrirkomulag. Ég ferðast án ábyrgðar, hann veit hvar við eigum að beygja og hvar við munum enda. Ég hef enga yfirsýn. Ég tek eftir skrýtinni hundastyttu í glugga á þriðju hæð í grænu húsi með útskornum þakkanti, en ég tek ekki eftir því hvað gatan heitir eða hvernig hún liggur. Ég verð alltaf jafnhissa þegar við endum þar sem við ætluðum okkur.

Ef ég hefði ratað á bargöturnar á Södermalm hefði þessi saga endað öðruvísi. Hún endar þannig að við giftumst og fluttum til Akureyrar. Hér höfum við búið í 15 ár. Ég rata enn ekki neitt í bænum. Börnin mín hafa aldrei farið í jólasveinabrekkuna af því að ég rata ekki þangað. Ég tek reglulega aukahring þegar ég þarf að fara í Bogann. Síðuskóla finn ég bókstaflega aldrei í fyrstu tilraun þó að dóttir mín æfi handbolta þar. Ég fór í Giljaskóla um daginn að lesa upp úr nýjustu bókinni minni og villtist á göngunum á  leiðinni út. Giljaskóli er ekkert kræklóttari en aðrir skólar, ég var í lestrarferð í Reykjavík vikuna áður og villtist þá í Seljaskóla. Þurfti að senda bókasafnskonunni mynd af því hvar ég var stödd svo hún gæti komið og bjargað mér. Þess vegna er ég alltaf með síma á mér. Google maps var hannað fyrir fólk eins og mig. Þegar fólk talar um símalausar gönguferðir líður mér eins og Hans og Grétu þegar vonda stjúpan sendi þau út í skóg. Ég er líka alltaf með brauðsneið og steinvölur í vasanum til öryggis.

Sumir vita alltaf hvert þeir ætla að fara og hvernig þeir ætla að komast þangað. Ég er ekki ein af þeim. Ég veit stundum hvert ég ætla, sjaldan hvernig ég kemst þangað og enda yfirleitt á allt öðrum stað, að minnsta kosti um stundarsakir. Ferðalagið kemur því stöðugt á óvart og það gerir það einmitt svo skemmtilegt. Það er svo upplífgandi að undrast.

Ég skora á Urði Snædal skáld og vínbúðarkonu að koma með pistil í næsta blað.

-Brynhildur Þórarinsdóttir.


Nýjast