Kostelic og Dagný Linda sigruðu í svigi á Iceland Air Cup

Í gær og í dag fer fram alþjóðlegt skíðamót í Hlíðarfjalli sem nefnist Iceland Air Cup. Króatinn Ivica Kostelic er meðal keppenda á mótinu en hann er víðfrægur í skíðaheiminum og hefur m.a. unnið til margra verðlauna á heimsbikarmótum, heimsmeistaramótum og ólympíuleikum svo eitthvað sé nefnt.

Keppni í svigi lauk í gær og kom það fáum á óvart að áðurnefndur Kostelic sigraði með miklum yfirburðum á tímanum 1.33,41 og annar varð Magnus Anderson frá Svíþjóð, rúmlega sekúndu á eftir. Björgvin Björgvinsson frá Dalvík varð þriðji, Egil Ismar frá Noregi fjórði og fimmti var Akureyringurinn Þorsteinn Ingason.

Hjá konunum sigraði Dagný Linda Kristjánsdóttir frá Akureyri með töluverðum yfirburðum á tímanum 1:41,46 og í öðru sæti varð Salóme Tómasdóttir sem einnig er frá Akureyri. Í þriðja sæti var svo enn einn Akureyringurinn, hin unga og efnilega Tinna Dagbjartsdóttir.

Nýjast