Komin er út bókin Fornihvammur í Norðurárdal
Fornihvammur er í Mýrasýslu í sveitarfélaginu Borgarbyggð. Það sýnir mikilvægi leiðarinnar yfir Holtavörðuheiði að fyrsta verkefni Fjallvegafélagsins var að gangast fyrir byggingu sæluhúss á þessum stað árið 1831, og einnig að leiðin um Holtavörðuheiði væri vörðuð. Fornihvammur var eyðibýli þegar sæluhúsið er reist, en reis aftur 1845 og þar var samfelld mannvist til 1977.
Hér er skrifuð saga Fornahvamms í Norðurárdal en efnið er tekið saman af Maríu Björg Gunnarsdóttur, sem þekkir af eigin raun sögu þessa merka áfangastaðar á ferðlögum landans um fjallveginn á milli norðurs og suðurs. Bókina skreyta margar myndir og er m.a. sagt frá dýralífinu á heiðinni en María Björg er mikil áhugakona um sportveiðar og ljósmyndun. Hún fór gjarnan til rjúpna í Norðurárdal þar sem hún þekkir vel aðstæður eftir áralanga búsetu í Fornahvammi. Faðir hennar Gunnar Guðmundsson var lengi staðahaldari í Fornahvammi en í bókinni er m.a. viðtal við hann sem Jökull Jakobsson skáld skrifaði á sínum tíma.
Bókin fæst í helstu bókaverslunum landsins og María selur sjálf bækur þeim sem eftir því leita hjá henni; mariagunnars@gmail.com.