Kolbrún býður sig fram í 3.-5. sæti hjá Sjálfstæðisflokknum

Kolbrún Sigurgeirsdóttir grunnskólakennari býður sig fram í 3.-5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fer fram þann 13. febrúar. Kolbrún er fædd á Akureyri árið 1966 og ólst upp á Staðarhóli í Eyjafjarðarsveit, ein 10 systkina. Hún gekk í barnaskóla á Laugalandi og síðan í unglingaskóla að Hrafnagili.  

Þaðan lá leið Kolbrúnar í Gagnfræðaskóla Akureyrar þar sem hún lauk námi á verslunarbraut. Eftir langt hlé ákvað Kolbrún að setjast á skólabekk á nýjan leik og útskrifaðist árið 2005  sem grunnskólakennari frá Háskólanum á Akureyri. Síðan þá hefur Kolbrún unnið við kennslu. Gegnum tíðina hefur Kolbrún unnið ýmis störf til dæmis við verslun, umönnun barna og fatlaðs fólks að ógleymdum sveitastörfunum.

Kolbrún er fimm barna móðir og  gift Aðalsteini Ómari Þórissyni húsasmið. Kolbrún er gamalgróinn sjálfstæðismaður og hefur setið í stjórn Sjálfstæðisfélags Akureyrar undanfarin þrjú ár. Hún hefur mikinn áhuga á skóla- og velferðarmálum en að þeim málaflokkum þarf að hyggja sérstaklega núna þegar kreppa ríkir í samfélaginu. Nauðsynlegt er að gæta aðhalds í rekstri og spara en samtímis þarf að standa vörð um þjónustuna og gæta hagsmuna þeirra sem hennar njóta. Að mati Kolbrúnar þarf að vanda sérlega vel til verka ef gera þarf breytingar á grunnþjónustu sveitarfélaganna og reyna að ná sátt um hagræðingaraðgerðir milli starfsfólks, stjórnmálamanna og þeirra sem þjónustuna nýta, segir í kynningu.

Nýjast