Það styttist óðum í að Íslandsmótið í knattspyrnu hefjist en fyrstu leikdagar í Pepsi-deild karla eru fyrr á dagskrá í ár vegna þátttöku U20 ára karlalandsliðsins á EM. Knattspyrnuvellir landsins koma misvel undan vetri og mun tíðafarið næstu daga og vikur ráða miklu um ástand þeirra fyrir fyrstu leikina í maí.
Þórsvöllurinn er í fínu standi en vallarstarfsmenn þar hleyptu hita á hitakerfið fyrir rúmum tveimur vikum. „Völlurinn grænkar með hverri mínútu sem líður og við munum sennilega bara á hann fyrir páska. Það er örugglega einsdæmi hér á Akureyri að borið sé á knattspyrnuvöll svona snemma,” segir Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs. Fyrsti heimaleikur Þórs í Pepsi-deildinni er gegn Stjörnunni þann 11. maí og á Sigfús von á því að völlurinn verði í toppstandi fyrir þann leik. „Það þarf að vera verulega vont veður næstu daga svo að það gangi ekki upp.”
Akureyrarvöllur kemur ágætlega undan vetri að sögn Eðvarðs Þórs Eðvarðssonar vallarstjóra, en óvíst er hvort hægt verði að leika á vellinum þann 20. maí, þegar KA tekur á móti ÍR í fyrsta heimaleik sínum í 1. deildinni. „Það er smá tími í að völlurinn verði tilbúinn og það fer mikið eftir veðri og vindum hvenær það verður. Það er stefnt að því að hafa hann kláran 2. júní. Það er markmiðið en svo gæti hann alveg verið tilbúinn fyrr,” segir Eðvarð.
Einnig eru framkvæmdir í fullum gangi á Akureyrarvelli, en þær eru fyrst og fremst innan dyra í stúkunni. „Þær ganga bara mjög vel og það er reiknað með að það verði allt tilbúið þegar fyrsti leikurinn fer fram á vellinum. Það lítur allavega þannig út núna,” segir Eðvarð.