Knattspyrnuvellir á Akureyri koma ágætlega undan vetri

Rögnvaldur Jónsson (t.h) og Srdjan Rajkovic voru í óðaönn við að bera á fyrsta áburð sumarins á Þórs…
Rögnvaldur Jónsson (t.h) og Srdjan Rajkovic voru í óðaönn við að bera á fyrsta áburð sumarins á Þórsvöllinn í vikunni. Mynd: Pál

Það styttist óðum í að flautað verður til leiks á Íslandsmótinu í knattspyrnu en 1. deild karla og Pepsi-deild kvenna hefjast um aðra helgi þar sem þrjú norðanlið verða í eldlínunni. Vallarstarfsmenn á knattspyrnuvöllum bæjarins eru í óðaönn við að bera á áburð og koma völlunum í gott stand fyrir fyrstu leiki sumarins en bæði Akureyrarvöllur og Þórsvöllur koma ágætlega undan vetri.

Rögnvaldur Jónsson, vallarstarfsmaður á Þórsvelli, segir að grasið sé gott miðað við árstíma. Þórsvöllurinn kom afar illa undan síðasta vetri og segir Rögnvaldur að enn sé glímt við afleiðingar af þeim kalblettum sem mynduðust á vellinum sl. vor.

„Við vorum að vinna í vellinum langt fram á síðasta haust og það er að skila sér núna. Þetta lítur ágætlega út en veðurfarið fram að fyrsta leik getur haft mikið að segja hvernig völlurinn verður þegar tímabilið hefst,“ segir Rögnvaldur. Fyrstu leikirnir á Þórsvelli fara fram um aðra helgi, dagana 12. og 13. maí.

Eðvarð Þór Eðvarðsson, vallarstarfsmaður á Akureyrarvelli, segir völlinn líta mjög vel út. „Grasið er afskaplega grænt og fallegt og þetta lofar góðu. Það ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að KA geti spilað fyrsta heimaleikinn á Akureyrarvelli,“ segir Eðvarð. KA á ekki heimaleik fyrr en 25. maí en fyrstu tveir leikir liðsins eru á útivelli.

Nýjast