Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ hefur sektað knattspyrnufélagið Þór um fimmtíu þúsund krónur vegna veðmálaauglýsinga en þetta kemur fram á heimasíðu sambandsins í dag.
Leikmenn og þjálfari Þórs mættu í viðtöl eftir leik liðsins í Lengjudeildinni með derhúfur sem auglýstu erlent veðmálafyrirtæki. Slíkt er bannað samkvæmt bæði reglum KSÍ og íslenskum lögum. Knattspyrnusambandið hafði vísað málinu til aga- og úrskurðarnefndar sem komst að niðurstöðu sinni á fundi í gær.
Segir m.a. í dóminum: „Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vill að lokum minna á nauðsyn þess að grein 1.4 í reglugerð KSÍ um knattspyrnumót verði í heiðri höfð, en þar segir: Félög, iðkendur, forystumenn og aðrir skulu jafnan sýna drengskap og forðast hvaðeina sem rýrt gæti álit almennings á íþróttinni og koma fram af hollustu, heiðarleika og sönnum íþróttaanda. Þeir sem taka þátt í starfi knattspyrnuhreyfingarinnar skulu leitast við að gera ekkert það sem til vanvirðu má telja fyrir íþróttina.“
Frétt tekin af mbl.is