Klipptu fingur af manni

Tveir menn hafa í Héraðsdómi Norðurlands eystra verið dæmdir í fangelsi fyrir ýmis gróf ofbeldisbrot sem þeir frömdu árið 2005 og á síðasta ári. Fjórir menn voru kærðir vegna málanna sem dæmd voru í einu lagi, einum var ekki gerð refsing og einn var sýknaður. Ofbeldismennirnir tveir sem dæmdir voru, réðust m.a. á konu sem ók þeim í leigubíl og slógu hana ítrekað í andlit, réðust á mann við Nætursöluna, slógu hann í höfuð ítrekað og eyðilögðu gleraugu hans, réðust inn í íbúð við Hafnarstræti og veittu húsráðanda áverka með hnefahöggum í andlit og þá réðust þeir inn á heimili manns, lömdu hann með hafnarboltakylfu í hnakkann og klipptu síðan litla fingur vinstri handar mannsins af við miðkjúku með greinaklippum! Annar mannanna sem var dæmdur hlaut 4 ára fangelsi en hinn 2 ár og samtals námu sektargreiðslur mannanna tveggja og málskostnaður um 4 milljónum króna.

Nýjast