Kjúklingur og ofnsteikt grænmeti

Rósa Kristjánsdóttir tók áskorun Þorleifs Stefánssonar og er hér með innlegg í matarkrókinn. Rósa leggur til  tvær uppskriftir sem hún segir að séu vinsælar hjá fjölskyldunni. Þetta eru einfaldir en mjög góðir réttir.

 

Kjúklingur

1 kjúklingur

125 gr. rjómaostur með hvítlauk og kryddi (við stofuhita)

hvítlauksrif

svartur pipar

salt

300 ml vökvi annaðhvort kjúkingasoð eða 50/50 hvítvín og vatn

Þvoið kjúklinginn og þerrið vel. Losið skinnið varlega á bringunni og setjið meirihlutann af rjómaostinum undir skinnið og nuddið restinni utan á kjúklinginn. Kryddið með salti og pipar og setjið hvílauksrifin inn í.

Setjið í ofnfast fat og hellið vökvanum yfir. Steikið í ofni við 200 gráður í u.þ.b. 45 mín. per kíló.

Ausið annað slagið yfir og gerið síðan sósu úr soðinu.

Annað tilbrigði er:

Í stað rjómaostsins blandið saman við 75 gr af mjúku smjöri eða smörlíki,

2 tsk. kóriander

2 tsk. cumin

1/4 tsk. chilipipar

1 pressaðan hvítlauksgeira.

Sítrónusneiðar inn í.

Ofnsteikt grænmeti

Grænmeti eldað á þennan hátt fer vel með kjúklingnum en er líka mjög gott alls konar kjöti á köldum vetrardegi. Þetta er ekki nákvæm uppskrift heldur best að hver og einn þrói sitt afbrigði.

Brytjið í um 3ja cm bita, blöndu af grænmeti að eigin vali s.s. kartöflur, sætar kartöflur, rófur, gulrætur, rauðlauk og púrrulauk.

Blandið saman:

ólivuolíu (1/2 - 1 dl)

pressuð hvítlauksrif (1-3)

kryddblanda með rósmarín, sage, oregano t.d. Italinan seasoning, (1-2 msk)

Blandið saman við grænmetið, best að nota hendurnar. Má gjarnan bíða í 1-2 tíma svo olían dragi bragðið í sig.

Hitið ofninn á mesta hita, hellið grænmetinu í ofnskúffuna, gjarnan álpappír undir. Kryddið með salti og pipar og steikið ofarlega í ofni í 35 til 40 mín. eða þar til grænmetið er til.

Rósa  skorar á Gunnar Halldór Gunnarson að koma með uppskriftir í næsta blað.

Nýjast