Kjúklingabringur með papaja-salsa og fiskréttur

Sonja Björk Elíasdóttir tók áskorun Hólmfríðar Guðnadóttur í síðustu viku og er mætt hér með girnilega rétti í matarkrókinn, annars vegar kjúklingarétt og hins vegar fiskrétt.  "Mmmm matur. Eitt af mínum áhugamálum er matur og matargerð," segir Sonja Björk. "Ég er dugleg að prófa eitthvað nýtt og elda þá aðallega fisk og kjúkling en er einnig með ýmislegt gott sem maður ólst upp við eins og slátur. Ég tek slátur á hverju ári með mömmu enda er slátur uppáhaldsmatur yngri dóttur minnar. Ég ákvað að senda inn kjúklingarétt, hann er ótrúlega góður, einfaldur og hollur og hef eldað hann nokkrum sinnum."

Kjúklingabringur með papaja-salsa (fyrir 4)

4 kjúklingabringur

Cajun spice mix (kryddblanda)

Salt og pipar

Olía til steikingar

Kryddið kjúklinginn og steikið við meðalhita þar til hann er steiktur í gegn.

Papaja-salsa:

2 papaja

1 avakadó

4 stórir tómatar

½ sítróna

1 lime

Salt og pipar

Kórianderlauf

Hreinsið og afhýðið papaja og avakadó og takið innan úr tómötunum. Skerið það síðan í teninga. Kreistið síðan safann úr sítrónunni og lime-inu yfir og kryddið. Blandið þessu vel saman. Saxið kórianderlaufin og stráið yfir.  Setjið salsa blönduna á fat og bringurnar yfir. Það má borða þetta eitt og sér en einnig er gott að bera fram nan-brauð með réttinum.

Verð að láta þennan fljóta með, mamma gaf mér uppskriftina fyrir mörgum árum og hann er alltaf góður.

Fiskréttur

650 gr. þorskur eða ýsa

Gróft salt

Sítrónusafi

½ pk frosin sælkerablanda

¼ pk frosið brokkolí

1 grænmetiskraftur

Sósan:

½ dolla sveppaostur

¼ dolla blaðlauksostur

¾ dl rjómi

Kryddað eftir smekk t.d. aromat, picanta, salt, paprikuduft

Tómatar

Havarti ostur m/papriku

Fiskurinn er soðin í saltvatni og með smá sítrónusafa og settur í eldfast mót. Grænmetið er soðið með grænmetisteningnum og sett yfir fiskinn. Osturinn er hitaður ásamt rjómanum og hellt yfir grænmetið.  Tómatarnir eru skornir í þunnar sneiðar og raðað yfir og Havarti osturinn settur yfir.

Þetta er bakað í 20 mín við 180°C. Borið fram með hrísgrjónum og snittubrauði.

"Verði ykkur að góðu. Ég skora á Ingibjörgu Ringsted að töfra fram lostæti í næsti viku."

Nýjast