Ferðafélagið Norðurslóð heldur uppteknum hætti og fer í kirknagöngu á föstudaginn langa. Þetta er þriðja árið í röð sem efnt er til slíkarar göngu. Nú ber daginn upp á 25. mars. Verður að þessu sinni gengið frá Ásmundarstöðum á Sléttu þar sem áður var kirkja og endað við Raufarhafnarkirkju.
Við upphaf og enda göngunnar verður miðlað fróðleik um kirkjurnar. Í göngulok verður boðið upp á hressingu og fólk síðan ferjað til baka eftir þörfum. Þetta er um 7 kílómetra auðveld ganga. Ferðafélagið hvetur til góðrar þátttöku í fróðlegri og hressandi útivist. Mæting við kirkjuna á Raufarhöfn kl. 13:00 þar sem verður sameinast í bíla.
Fram til ársins 1929 sóttu íbúar á Raufarhöfn kirkju á Ásmundarstöðum. Þar var hálfkirkja frá Presthólum til ársins 1853, en þá varð sú breyting á að Ásmundarstaðir urðu aðalkirkja í sérstakri sókn og hélst sú skipan til ársins 1911, en þá var sóknin lögð undir Svalbarðssókn. Raufarhafnarkirkja er steinkirkja, byggð árið 1928. Kirkjan var teiknuð af Guðjóni Samúelssyni og var tekin í notkun 1. janúar 1929.
Ýmislegt fleira verður á seyði á Raufarhöfn um páskana eins og sjá má á raufarhofn.is.
Ferðafélagið Norðurslóð starfar á svæðinu frá Kelduhverfi austur á Bakkafjörð. HG