Kinnfiskaræktun á kaupfélagsfundi

Starri í Garði. Mynd: JS
Starri í Garði. Mynd: JS

Á aðalfundi Kaupfélags Þingeyinga  árið 1984 áttu þeir Böðvar Jónsson og Egill Gústafsson að ganga úr stjórninni. Það vakti athygli fundarmanna að báðir skörtuðu  þeir félagar  gróskumiklu alskeggi. Var haft í flimtingum á fundinum að ástæða þessarar kinnfiskaræktunar væri sú að þeir kumpánar teldu sig fá virðulegra yfirbragð fyrir vikið og því meiri líkur á að þeir næðu endurkjöri í stjórn. Þóttust sumir meira að segja sjá að Böðvar hefði stúderað ásjónu sjálfs Vals Arnþórssonar, því skeggi Böðvars þótti að forminu til svipa mjög til skeggs þáverandi stjórnarformanns SÍS.

Fór svo að þeir Böðvar og Egill voru báðir endurkjörnir. Fyrir kosningarnar kastaði Starri í Garði fram þessari vísu og reyndist forspár:

 

Kaupfélagsstjórnar kosningar

kunna að reynast auðveldar.

Áherslu ég á það legg,

að menn hafi fallegt skegg. JS

 


Nýjast