Keppt í stjörnuflokki á Andrésar Andar leikunum

Kristján Logi ásamt föður sínum Kára Jóhannessyni, sem aðstoðar hann og dregur á eftir sér í púlku. …
Kristján Logi ásamt föður sínum Kára Jóhannessyni, sem aðstoðar hann og dregur á eftir sér í púlku. Myndir: Vera Kristín.

Hinir árlegu Andrésar Andar leikar á skíðum fara fram þessa dagana í Hlíðarfjalli á Akureyri. Þar eru skráðir til leiks um 660 keppendur víðsvegar af landinu, á aldrinum 6 til 14 ára. Keppendur keppa ýmist á gönguskíðum, svigskíðum eða brettum. Í ár eru sex keppendur sem keppa í stjörnuflokki, en í þeim flokki eru börn með fötlun. Þar eru fimm krakkar sem kepptu í stórsvigi í morgunm, þau; Hilmar Snær Örvarsson (Víkingi), María Sverrisdóttir (SKÍS), Guðmundur Orri Garðarsson (Skíðafélagi Akureyrar), Hilmar Björn Zoega (Víkingi) og Rut Ísafold Kristjánsdóttir (Dalvík). Þá er einn sem keppir á gönguskíðum, hann Kristján Logi Vestmann Kárason sem keppir fyrir hönd Skíðafélags Akureyrar. Kristján Logi á að hefja sína göngu á slaginu klukkan 13:00 í dag. Þessir krakkar, að öðrum keppendum ólöstuðum, eru sannar hetjur sem ekki láta fatlanir og veikindi sín aftra sér í sínu daglega lífi. Öll eiga þau það sameiginlegt að skemmta sér vel á skíðunum og má sjá gleðina skína úr andlitum þeirra þegar þau mæta í fjallið og bruna af stað. Pabbi Kristjáns Loga, Kári Jóhannesson, dregur hann á eftir sér í púlku. Kristján Logi skríkir á ánægju og er aldrei glaðari en þegar pabbinn tekur vel á því og fer vel hratt.

Nýjast