Keppni á alþjóðlega Ice Cup krullumótinu hefst í dag

Alþjóðlega krullumótið Ice Cup fer fram í Skautahöllinni á Akureyri núna um helgina. Mótið hefst kl. 18 í dag og lýkur með úrslitaleikjum sem hefjast kl. 14 á laugardag. Þetta er í áttunda skipti sem Krulludeild Skautafélags Akureyrar stendur fyrir þessu móti. Tíu erlendir keppendur eru á mótinu að þessu sinni, en ekkert heilt erlent lið.  

Nokkrir liðsmenn héðan spila í liðum með erlendum gestum mótsins. Alls eru 62 keppendur á mótinu, þar af 23 konur, en aldrei hafa fleiri konur tekið þátt í einu og sama krullumótinu hér á landi. Meðal annars eru tvö heil kvennalið, en í allt eru fjórtán lið sem etja kappi á Ice Cup að þessu sinni. Í tilefni af því hve margar konur taka þátt í mótinu mun keppnisstjóri að líkindum leika í skotapilsi í kvöld, en hann leikur í liði með þremur konum sem mætir fullskipuðu kvennaliði í kvöld.

Krulludeild Skautafélags Akureyrar fagnar fimmtán ára afmæli sínu um þessar mundir, en deildin var stofnuð á aðalfundi Skautafélagsins þann 22. maí 1996. Í tilefni afmælisins hefur deildin undanfarna viku staðið fyrir Krulludögum þar sem almenningi hefur gefist kostur á að koma og prófa, fá leiðsögn og keppa. Einnig hefur þeim sem æfa íþróttina að staðaldri hefur gefist kostur á þjálfun og leiðsögn hjá Camillu Jensen, danskri landsliðskonu í íþróttinni.

Nýjast