Kennsla í Lundarskóla mögulega færð í Rósenborg vegna myglu

Miklar framkvæmdir standa yfir í Lundarskóla.
Miklar framkvæmdir standa yfir í Lundarskóla.

Verið er að kanna þann möguleika hvort hægt sé að fara með nokkra bekkjardeildir úr Lundarskóla á Akureyri yfir í Rósenborg næsta vetur vegna myglu. Lundarskóli verður hugsanlega endurnýjaður í heild sinni í stað þess að laga skemmdir.

Eins og fjallað var um í blaðinu fyrir skemmstu er verið að vinna að úrbótum í Lundarskóla en í mörg ár hefur starfsfólk skólans kvartað undan óþægindum sem hugsanlega megi rekja til myglusvepps. Í skýrslu Mannvits um niðurstöður sýnatöku frá því í mars sl. þar sem 37 ryksýni og 6 efnissýni voru tekin kemur fram að vísbendingar um örveruvöxt hafi fundist á afmörkuðum svæðum í eldri hluta skólans. Framkvæmdir eru þegar hafnar til að vinna að úrbótum.

Beðið eftir frekari niðurstöðum

Karl Frímannsson, sviðsstjóri fræðslusviðs Akureyrar, segir að hugsanlega verði ráðist í gagngerar endurbætur í stað þess að lagfæra aðeins hluta skólans. Húsnæðið sé komið til ára sinna en elsti hlutinn er 47 ára.

„Það er margt óljóst hvernig framkvæmdum á endurbótum verður háttað en það þarf að bíða eftir frekari rannsóknum,“ segir Karl, en beðið er eftir niðurstöðum um ástand steypu í skólanum og ákvörðun um framhaldið verður tekin þegar það liggur fyrir. „Við leggjum kapp á að það verði ljóst í næstu viku hvað verður. Þetta þarf að skýrast sem fyrst því það er vont að fara út í sumarið með óvissu um þessi mál,“ segir Karl.

Kostnaður gæti verið á annan milljarð

Fram kom á kynningarfundi með starfsfólki og foreldrum barna í Lundarskóla um sl. helgi að kostnaður við endurbætur liggi ekki fyrir en hann gæti verið á annan milljarð króna. Þá hafa vangaveltur verið um hvort fara þurfi þá leið að rífa skólann og byggja nýjan frá grunni. Spurður um þetta segir Karl það ekki útilokað. „Það er einn möguleikinn en sú leið að byggja
nýjan skóla yrði vafalaust mun dýrari.“

Efstu fjórir bekkirnir í Rósenborg

Eins og fyrr segir er inn í myndinni að færa nokkra bekki í Lundarskóla til kennslu í Rósenborg. Um er að ræða 7.-10. bekk. „Þá gæti þetta orðið 1-2 vetur. En það er alls óvíst hvort og hvernig þetta verður eins og staðan er í dag,“ segir Karl Frímannsson.


Athugasemdir

Nýjast