Kenning um vel gifta karla

Gauti Einarsson.
Gauti Einarsson.

Gauti Einarsson heldur um áskorendapennan að þessu sinni.

Þegar ég stundaði nám í lyfjafræði var ég einhverjar frímínúturnar að gæða mér á roastbeefsamloku þegar ég heyrði einn samnemanda minn segja að Guðrún bekkjarsystir okkar væri gengin nokkra daga fram yfir. Er Guðrún ólétt? spurði ég á móti og kom alveg af fjöllum. Tvöföldum tíma í eðlislyfjafræði strax á eftir eyddi ég svo í að mæla út hana Guðrúnu en það var alveg sama frá hvaða sjónarhorni ég mændi á hana, mér fannst hún alltaf eins og nagað hundsbein. Í lok tímans rann allt í einu upp fyrir mér að það voru tvær stúlkur með mér í bekk sem gengdu nafninu Guðrún. Þá varð mér litið á Guðrúnu hina síðari er hún kom kjagandi inn í skólastofuna í þriðja skiptið þennan tímann af klósettinu og það leyndi sér nú ekki að hún var með a.m.k. einu barni. Þetta hafði alveg farið framhjá mér undangengna níu mánuði með henni í skólanum upp á hvern virkan dag, en mér til varnar átti ég svo sem heldur enga aðild að málinu.

15 árum síðar sótti ég elsta son minn í skólaferðalag í Skagafirði. Keyrði með hann til Reykjavíkur, horfði á hann á landsliðsæfingu og fór með honum út að borða á eftir. Þá kviknaði skyndilega á perunni og ég spurði: ertu búinn að lita á þér hárið? Pabbi, ég er orðinn rauðhærður, svaraði drengurinn sem hafði litað á sér hárið í einhverju flippi.

Ég var búinn að vera málkunnugur manni í tæpan áratug þegar ég komst að því eftir ábendingu frá þriðja aðila að viðkomandi væri albínói. Því hafði ég ekki tekið eftir enda hefði sú vitneskja heldur ekki skipt miklu fyrir okkar samskipti.

Skömmu eftir að við hjónin vorum búin að skipta um bíl var ég að keyra Þingvallarstrætið þegar ég mætti konunni minni undir stýri. Ég sá hana reyndar ekki glöggt en þekkti nýja bílinn okkar svo ég heilsaði henni glaðlega. Áttaði mig svo á því að ég var sjálfur að keyra bílinn nýja og konan mín sat við hliðina á mér.

Eitt sinn hringdi móðir mín í mig í apótekið að sumarlagi og bað mig um að skutla einhverju til sín. Það var nokkuð brýnt að hún fengi þetta samdægurs svo ég keypti vöruna og stakk henni í annan skóinn minn svo ég myndi nú örugglega muna eftir því að koma þessu til skila að vinnu lokinni. En svo labbaði ég til hennar á inniskónum og gleymdi þar af leiðandi vörunni mikilvægu.

Nýverið þurfti ég svo að senda frá mér áríðandi pappíra úr vinnunni en sendi fyrir mistök uppskrift að heimagerðu remúlaði sem starfsmaður minn hafði verið að prenta út um svipað leiti. Þetta fór frá mér í ábyrgðarpósti en þó ekki fyrr en ég hafði stimplað með merki apóteksins og ritað undir neðanmáls.

Nokkrum dögum síðar barst mér reyndar bréf í ábyrgðarpósti. Þar var komin uppskriftin af heimagerða remúlaðinu en búið að bæta við einni teskeið af capers. Stimplað og undirritað Víglundur. 

Svona gæti ég talið endalaust upp. Samt er ég ekki greindur með athyglisbrest. Mér hefur alltaf gengið ágætlega að læra, á auðvelt með að einbeita mér við veiðar og við vinnu - a.m.k. á meðan ég hef ekki annan til að stóla á. Og þá kemur kenningin sem ég heyrði fyrst í morgun hjá tveimur samstarfskonum mínum: Vel giftir karlar eiga erfiðara með að einbeita sér en aðrir. Um leið og það er kona til staðar sem er skipulögð, dugleg og drífandi fer karlinn í einskonar "safe mode", vilja þær meina. Skv. þessari kenningu er ég búinn að líða áfram á lágmarksafli í bráðum 30 ár. 

-Gauti Einarsson

Ég skora á Brynhildi Þórarinsdóttur í að koma með pistil í næsta blað.


Nýjast