Kennarar HA undrast ójafnræði

Háskólasvæðið á Akureyri.
Háskólasvæðið á Akureyri.

Félag háskólakennara á Akureyri hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir undrun á þeim áformum fjárlaganefndar Alþingis að verja hlutfallslega miklu minna fé til Háskólans á Akureyri en annarra háskóla í landinu vegna úthlutunar aukinna framlaga til háskóla. Af 617 milljónum sem ríkið veitir aukalega til háskóla í fjárlögum næsta árs fær Háskóli Íslands tæplega 300 milljónir og Háskólinn í Reykjavík um 250 milljónir. HA fær aðeins tíu milljónir þrátt fyrir að vera þriðji stærsti skóli landsins, en restin af fjárveitingunni dreifist á aðra skóla.


"Við skorum á nefndina að breyta þessu. Við förum fram á að jafnræðis sé gætt og að fjárveitingar til HA verði í réttu hlutfalli við nemendafjölda og umsvif skólans miðað við aðra háskóla. Skólinn hefur sýnt aðhald í rekstri og haldið útgjöldum innan fjárveitinga mörg undanfarin ár. Hann hefur greitt upp skuldahala við ríkissjóð. Starfsfólk skólans lagði sitt af mörkum á erfiðum tímum með því að gangast undir skerðingu launa og réttinda. Rannsóknarmisseri kennara urðu fyrst á þessu ári aftur veruleiki eftir hrun. Óvíst er að hægt verði halda áfram með þau eins og dæmið lítur út núna.


Á sama tíma hefur hvergi verið slakað á faglegum kröfum og skólinn fengið góða umsögn í viðamikilli gæðaúttekt erlendra sérfræðinga á vegum stjórnvalda fyrr á þessu ári. Hlutur HA í boðaðri viðbótarfjárveitingu er í engu samræmi við hlutfallslegan nemendafjölda eða umfang skólastarfsins hér miðað við aðra háskóla. Við lýsum undrun okkar á að fjárveitingavaldið skuli ekki gæta meira jafnræðis þegar svigrúm hefur skapast til þess að auka framlög til háskólamenntunar í landinu. Við skorum á fjárlaganefnd að taka þessi áform til endurskoðunar og hækka framlagið til Háskólans á Akureyri," segir í yfirlýsingu FHA.

Nýjast