KEA færir Fjölmennt gjöf

Halldór Jóhannsson, framkvæmdastjóri KEA, afhenti í dag Fjölmennt á Akureyri tölvubúnað að gjöf. Nýverið flutti Fjölmennt í nýtt húsnæði að Hvannavöllum 14 en þar með lauk langri bið eftir viðunandi húsnæði fyrir starfsemina. Forveri Fjölmenntar á Akureyri var Hvammshlíðarskóli eða Fullorðinsfræðsla fatlaðra. Fyrir tæpum fimm árum var Fjölmennt sett á laggirnar og starfar á landsvísu. Fjölmennt er sjálfseignarstofnun í eigu ríkisins með sjálfstæðan fjárhag en starfar eftir þjónustusamningi við Menntamálaráðuneytið. Starfsstöðvar eru þrjár; í Reykjavík, á Akureyri og á Selfossi. Starfsemin á Akureyri skiptist í þrjár deildir. Í fyrsta lagi símenntunardeild þar sem þroskaskertir sækja margs konar námskeið. Í öðru lagi endurhæfingardeild sem er fyrst og fremst fyrir þá sem eru að ná sér á strik eftir erfið veikindi eða slys. Í þriðja og síðasta lagi framhaldsdeild sem er fyrir mikið fatlaða nemendur á framhaldsskólaaldri. Milli 80 og 90 nemendur sækja námskeið að jafnaði hjá Fjölmennt á Akureyri á hverju starfsári.

Jón Stefán Baldursson, deildarstjóri Fjölmenntar á Akureyri, segir að gjöfin, netþjónn, afritunarbúnaður o.fl., muni koma að góðum notum og verða til þess að bæta enn frekar aðstöðu Fjölmenntar.

Nýjast