Kaupmenn þokkalega sáttir með jólaverslunina

Mörgum þykir ómissandi að bregða sér í miðbæinn á aðventunni og versla jólagjafir.
Mörgum þykir ómissandi að bregða sér í miðbæinn á aðventunni og versla jólagjafir.

Verslunarfólk á Akureyri sem Vikudagur ræddi við eru sammála um að verslun fyrir jólin sé með ágætum en óveðrið í byrjun desember hafi þó sett strik í reikninginn. „Þetta hefur verið ágætt,“ segir Ragnar Sverrisson í herrafataversluninni JMJ. „Það komu þrír dagar í óveðrinu sem fóru algjörlega forgörðum. En ef veðrið verður gott fram að jólum þá ætti það ekki að koma á sök.“ Ragnar bendir á að í fyrra hafi veðrið verið meira en minna leiðinilegt frá 14. desemeber og fram að jólum. „Það var mjög óheppilegt fyrir verslun á svæðinu, en ég er bjartsýnn á að síðustu dagar fyrir þessi jól verði góðir. Það eru stórir dagar framundan og veðrið helst þokkalegt mun rætast vel úr þessu,“ segir Ragnar.

Ólafur Sigurðsson, verslunarstjóri í Toppmenn og Sport, sem selur íþróttavörur, tekur í svipaðan streng. „Heilt yfir hefur þetta verið ágætt hingað til. Veðrið hefur gert okkur smá erfitt fyrir sem erum með verslun í miðbænum, en ekkert alvarlega þó,“ segir Ólafur. En eru íþróttavörur alltaf vinsælar jólagjafir? „Já, þær eru það enda eru þetta vandaðar vörur sem nýtast fólki mjög vel og það er hægt að fá eitthvað fyrir alla. Vissulega erum við í harðri samkeppni við netverslanir en erum ágætlega sátt.“

Hilda Eichmann, aðstoðarverlsunarstjóri í Lindex á Glerártorgi, sem selur m.a. barnaföt, segir verslunina hafi aukist jafnt og þétt. „Við erum þokkalega sátt. Þetta er að vísu bara annað árið okkar hér á Akureyri og það var auðvitað mikið að gera í fyrra hjá okkur þegar við vorum nýlega búin að opna. En mér sýnist stefna í ágæta jólaverslun í ár,“ segir Hilda.

-Vikudagur, 17. desember

Nýjast