Gengið hefur verið frá ráðningu forstöðumanns markaðs- og kynningarsviðs Háskólans á Akureyri. Alls bárust 21 umsókn um starfið. Af umsækjendum uppfyllir Katrín Árnadóttir best þær kröfur sem gerðar voru í auglýsingu og hefur hún verið ráðin í starfið.
Katrín hefur lokið meistaranámi í fjölmiðlun frá Háskólanum í Siegen í Þýskalandi og grunnnámi í fjölmiðlun við sama skóla. Í dag rekur Katrín sitt eigið leiðsögufyrirtæki, Berlínurnar, ásamt því að reka íslenskuskóla í Þýskalandi. Undanfarin 15 ár hafa störf Katrínar nær eingöngu verið á sviði verkefnastjórnunar, markaðs- og kynningarmála og viðburðastjórnunar. Hún stýrði til að mynda kynningu Íslands á bókasýningunni í Frankfurt árið 2011, en verkefnið stóð yfir í um 4 ár og voru haldnir hátt í 400 viburðir og kynningar í tengslum við sýninguna. Fyrir það verkefni voru veitt þýsk og íslensk verðlaun fyrir stefnu í markaðsmálum. Einnig hefur Katrín komið að markaðs- og kynningarmálum í gegnum sín eigin fyrirtæki í Þýskalandi. Hún starfaði fyrir kynningarfyrirtækið projekt2508, sem sérhæfir sig í menningartengdri ferðamennsku. Þá hefur hún komið að ýmsum viðburðum og kynningum fyrir sendiráð Íslands í Berlín, ásamt því að starfa með ýmsum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Katrín hefur mikla reynslu af samskiptum við fjölmiðla í sínum störfum.
Kristín mun láta af störfum 1. apríl n.k. og þá mun Katrín hefja störf. EPE/ugla.unak.is