KA/Þór átti ekki í teljandi vandræðum með lið Víkings á útivelli í N1- deild kvenna í handbolta í dag, en norðanstúlkur unnu fjórtán marka sigur í leiknum, 36:22. KA/Þór hafði tíu marka forystu í hálfleik, 17:7. Arna Valgerður Erlingsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs í leiknum með 8 mörk, Arndís Heimisdóttir skoraði 6 mörk og þær Katrín Vilhjálmsdóttir og Martha Hermannsdóttir komu næstar með 5 mörk hvor.
Fyrir Víking skoraði Guðríður Ósk Jónsdóttir 9 mörk og Helga Birna Brynjólfsdóttir kom næst henni með 7 mörk.
KA/Þór hefur 11 stig í sjöunda sæti deildarinnar en Víkingur situr á botninum án stiga.