KA/Þór eygir möguleika á sæti í úrslitakeppninni

KA/Þór á erfiða leikjadagskrá framundan. Mynd/Þórir Tryggvason.
KA/Þór á erfiða leikjadagskrá framundan. Mynd/Þórir Tryggvason.

Þegar sextán umferðir eru liðnar í Olís-deild kvenna í handbolta er KA/Þór í fimmta sæti deildarinnar með 17 stig, jafnmörg stig og ÍBV sem er í fjórða sæti en Eyjaliðið hefur betri markatölu. Valur er í efsta sæti deildarinnar með 26 stig, Fram situr í öðru sæti með 25 stig og Haukar hafa 21 stig í þriðja sæti.

Efstu fjögur liðin tryggja sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn og því er KA/Þór í dauðafæri í að komast þangað eins og staðan er í dag. Sé tekið mið af því að KA/Þór er nýliði í deildinni, og var spáð falli af mörgum, má telja það frábæran árangur að liðið hafi komið sér í þessa stöðu. KA/Þór sigraði HK á útivelli í síðustu umferð í nýliðaslag, 29-28, og sigraði Selfossi með sömu tölum í leiknum þar á undan.

Næsti leikur KA/Þórs er gegn Haukum á heimavelli en liðin eigast við í KA-heimilinu þriðjudaginn 26. febrúar. Næstu þrír leikir eru svo gegn Val á útivelli, Fram á heimavelli og ÍBV á útivelli. Allt leikir á móti liðum í fjóru efstu sætunum og því ljóst að verkefnið framundan er verðugt.   


Athugasemdir

Nýjast