Karlmaður um þrítugt var fluttur á sjúkrahúsið á Akureyri um níu á laugardagsmorgun eftir að annar endinn á 12 metra löngu stálröri féll á manninn þar sem hann var við vinnu í Þeistareykjavirkjun. mbl.is greindi frá þessu.
Samkvæmt lögreglunni á Húsavík átti maðurinn við öndunarerfiðleika að stríða og var hann brotinn á bringu. Maðurinn ku vera á batavegi. Að sögn lögreglunnar er mikið mildi að hann hafi ekki slasast lífshættulega. Hann var að vinna ásamt hópi annarra við samsetningu á gufulögn þegar slysið varð.
Rörið sem er mörg tonn að þyngd, féll eftir að festing hafði brotnað. Vinnueftirlit ríkisins var kallað á vettvang, auk þess sem öryggisteymi á vegum Landsvirkjunar rannsakar málið.
Slysið er litið mjög alvarlegum augum. Samkvæmt lögreglunni er þetta alvarlegasta atvikið sem átt hefur sér stað við framkvæmdirnar í Þeistareykjavirkjun. /EPE.