Karlakórinn Heimir og Karlakór Reykjavíkur saman á tónleikum

Karlakórinn Heimir og Karlakór Reykjavíkur halda tvenna tónleika á Norðurlandi laugardaginn 6. mars. Fyrri tónleikarnir verða í Glerárkirkju á Akureyri og hefjast þeir kl. 15.00 en hinir síðar fara fram í Miðgarði í Skagafirði kl. 20.30. Viku síðar, 13. mars munu kórarnir endurtaka leikinn með tvennum tónleikum í Langholtskirkju í Reykjavík.

 

Segja má að um sögulegan viðburð sé  að ræða en þetta mun vera í fyrsta sinn sem þessir tveir fornfrægu karlakórar standa saman að tónleikahaldi.  Hér gefst unnendum karlakórssöngs kostur á að hlýða á sígild og minna þekkt kórlög og ekki er síður á ferðinni tækifæri fyrir þá sem ekki hafa vanið komur sínar á slíka tónleika að kynnast þeim vönduðu og voldugu hljóðfærum sem góðir karlakórar sannarlega eru.  

Stjórnandi Karlakórsins Heimis er Stefán R. Gíslason og Friðrik S. Kristinsson stýrir Karlakór Reykjavíkur. Miðaverð er kr. 3000 og eru miðar seldir við innganginn.  Hægt er að kaupa miða í forsölu í Eymundsson Akureyri,  KS Varmahlíð, Kompunni Sauðárkróki og á netinu á http://www.kkor.is/, segir í fréttatilkynningu.

Nýjast