Kanna grundvöll fyrir reglubundnu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, flugmaður og talsmaður vinnuhóps sem hefur starfað undir heitinu N-Ice Air (North Iceland Air: Fly N-Ice), kynnti nýverið verkefni sem hann hefur verið að vinna að í tengslum við millilandaflug um Akureyrarflugvöll. Hópurinn, sem samanstendur m.a. af fulltrúum frá Norlandair, Samherja og Höldi, hefur undanfarið kannað grundvöll þess að koma á fót reglubundnu millilandaflugi um Akureyrarflugvöll til frambúðar. Bendir hópurinn á að forsendur fyrir auknu millilandaflugi á Akureyri sé m.a. að aksturstíminn til Keflavíkur sé að meðaltali 6-9 klst. og að fólk meti útlagðan kostnað við ferðalag til Keflavíkur á bilinu 64-132 þúsund kr. Einnig að upptökusvæði Akureyrarflugvallar, heimamarkaðarins, telji svipaðan mannfjölda og Færeyjar, hvaðan allt að ellefu millilandaflug á dag voru fyrir kóf.

Kaupmannahöfn, London og Spánn

Þorvaldur segir að markaðsrannsóknir hópsins, bæði á erlendum markaði og á heimaslóð, sýni að full ástæða sé til að ætla að grundvöllur sé fyrir flugi til og frá Akureyri a.m.k. fimm sinnum í viku er kófi slotar, auk þess sem tölur Ferðamálastofu gefi fullt tilefni til bjartsýni. Helstu áfangastaðir sem horft er til eru Kaupmannahöfn, London og Spánn (Tenerife og Alicante). Í erindi sínu á ráðstefnu Markaðsstofu Norðurlands fór Þorvaldur yfir niðurstöður nýrrar könnunar sem framkvæmd var af MMR fyrir N-Ice Air hópinn og kannaði m.a. áhuga fólks á Norður-og Austurlandi fyrir að fljúga beint frá Akureyri til áfangastaða erlendis. Þar sögðust 78% svarenda mjög eða frekar sammála að það myndi ferðast oftar til útlanda ef beint flug um Akureyrarflugvöll til áfangastaða í Evrópu á samkeppnishæfu verði væri í boði.

Niðurstöðurnar hvetjandi

„Könnun MMR er afar hvetjandi og styrkir  tiltrú hópsins um góðan grundvöll fyrir reglubundnu flugi,“ segir Þorvaldur Lúðvík í samtali við Vikublaðið. Spurður um næstu skref segir Þorvaldur að N-Ice Air munu nú skerpa vinnuna í þá átt að slípa til viðskiptalíkan og afla samninga sem styðja myndu slíka byrjun.

-Er verið að leita að fjárfestum og skoða að stofna akureyrskt flugfélag til að annast millilandaflug um Akureyrarflugvöll?

„Við erum að skoða í þaula hvernig þessu verði best komið á og of snemmt að segja til um útfærsluna. Val á hagkvæmasta kosti, með minnsta fjárbindingu og áhættu, verður líklegast fyrir valinu fyrstu skrefin,“ segir Þorvaldur. Hann segir hópin hafa kannað grundvöll fyrir leiguflugvélum. „Við göngum út frá því að það væru okkar fyrstu skref, ekki ólíkt Iceland Express og WOW, þannig að skynsamleg nýting fjármuna og lágmörkun áhættu sé í fyrirrúmi,“ segir Þorvaldur.

Þorvaldur Lúðvík

Sögulegt tækifæri

Hann segir þetta einstakt tækifæri. „Tvímælalaust. Leiguverð flugvéla hafa aldrei verið lægri, olíuverð er skaplegt og ferðavilji mikill er kófi slotar. Ef maður er ekki lestaður af fortíðarfjárbindingu eða uppsöfnuðu tapi er hér sögulegt tækifæri fyrir nýja aðila til að stíga inn,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson.


Athugasemdir

Nýjast